Fluttur slasaður með þyrlu frá gosstöðvum í nótt

04.08.2022 - 09:56
Loftmynd tekin 3. ágúst kl 22:30
 Mynd: Gísli Berg - RÚV
Tveir ferðamenn slösuðust í nótt og þurfti aðstoð Landhelgisgæslunnar við að flytja annan þeirra á sjúkrahús. Þá þurftu nokkrir ferðamenn aðstoð vegna smávægilegra meiðsla. 

Þetta segir Úlfar Lúðvíksson, lögreglustjóri á Suðurnesjum. Úlfar bendir á að gönguleiðin er erfið og ekki fyrir alla. Það taki vanan göngumann um tvær klukkustundir að ganga að gosstöðvunum. Gönguleiðin er um 17 km og þónokkur hækkun. 

Úlfar segir áhyggjuefni að leiðsögumenn með ferðamenn sýndu tilmælum viðbragsaðila lítinn skilning þegar vaðið var að stað með ferðamenn sem voru illa undir það búnir að leggja í erfiða göngu. Hann biðlar til fólks að taka fullt tillit til leiðbeininga og fyrirmæla frá viðbragðsaðilum. 

Lögregla lokar svæðum gerist þess þörf.

Dimmt á gönguleiðinni um miðnætti

Talsvert var af fólki við eldstöðvarnar í gær og fjölgaði ferðamönnum upp úr miðnætti.  Margir voru illa búnir, og ekki með vasaljós, en mjög dimmt var á gönguleiðinni eftir miðnætti. Hjálmar Hallgrímsson, lögreglumaður á Suðurnesjum, bendir á að fólk þurfi að hafa með sér vasaljós. „Nú er farið að dimma og fólk áttaði sig ekki á þessu fyrr en að það kom til baka og ekki með ljós, sumir hverjir ekki með vatn eða súkkulaði eða neitt.“ Hann brýnir fyrir fólki að búa sig vel.

Akstur utan vega er bannaður á svæðinu og einhverjur hafa verið kærðir fyrir utanvegaakstur frá því í gær.

Erfitt fyrir viðbragðsaðila að komast að slösuðum

Bogi Adolfsson, hjá björgunarsveitinni Þorbirni, segir mestu máli skipta að fólk sé vel búið og átti sig á aðstæðum. Björgunarsveitin undirbúi nú að standa vaktina við gosstöðvarnar dag og nótt. Þótt gosið sé á hentugum stað að mörgu leyti taki öll útköll langan tíma og því vonist hann til þess að fólk fari með gát.