Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

„Flugvellir eru framkvæmdasvæði“

04.08.2022 - 11:09
Mynd: Þór Ægisson / RÚV
Framkvæmdir við stækkun Keflavíkurflugvallar fara ekki fram hjá neinum sem á leið um völlinn þessa dagana. Austan megin flugstöðvarinnar, nær Reykjanesbæ, er heljarinnar stálvirki risið en þar er unnið að viðbyggingu sem á að taka í notkun árið 2024.

Viðbyggingin er um 20.000 fermetrar og stækkar flugstöðin með því um 37%. Landgöngum á vellinum fjölgar um sex, úr 22 í 28. Mesta breytingin verður í móttökusalnum þar sem töskuböndum fjölgar úr tveimur í fimm og komufríhöfnin stækkar. Brottfararfríhöfnin á efri hæðinni stækkar líka.

Guðmundur Daði Rúnarsson, framkvæmdastjóri viðskipta og þróunar á Keflavíkurflugvelli, var gestur Morgunútvarpsins á Rás 2. „Ég hef oft sagt að lugvöllur sé framkvæmdasvæði þar sem vill svo til að flugvélar lenda,“ segir hann kíminn um þær miklu framkvæmdir sem eru fyrirhugaðar á vellinum næstu árin.

Og ekki veitir af. Umferð um Keflavíkurflugvöll hefur náð sér hratt eftir covid og nú í júlí voru farþegar fleiri en í sama mánuði 2019. Alls fóru 852 þúsund farþegar um völlinn í síðasta mánuði, samanborið við 841 þúsund í júlí 2019. Til samanburðar voru farþegar aðeins 130 þúsund í júlí 2020.

„Þegar maður hugsar til baka áttar maður sig á því hvað þetta var dapurlegur tími, að mæta í vinnuna og það voru kannski þrjú þúsund gestir á heilum degi,“ segir Guðmundur Daði.

Starfsfólkið hafi hins vegar haft trú á því að Ísland yrði góður áfangastaður eftir heimsfaraldur og lagt áherslu á að ná aftur flugleiðum og flugfélögum sem fyrst. „Sú vinna er að borga sig,“ segir Guðmundur. Fjöldi flugfélaga sem flýgur um völlinn er sambærilegur við það sem var fyrir faraldur og áfangastaðir jafnmargir, 75.

Gengið vel að manna störf

Víða um heim glíma flugvellir við eftirköst faraldursins. Illa hefur gengið að fá fólk til starfa á ný eftir uppsagnir í faraldrinum, og stöðugar fréttir um seinkanir, niðurfelld flug og vandræði við innritun og vopnaleit hafa borist af flugvöllum um alla Evrópu.

Guðmundur Daði segir að á Keflavíkurflugvelli hafi að mestu tekist að halda starfseminni gangandi. „Ég er ofboðslega stoltur af starfsfólkinu. Auðvitað geta komið upp hnökrar, en heilt yfir höfum við verið með góðan biðtíma bæði í vopnaleitinni og töskuinnritun,“ segir hann. Mönnun á vellinum er um 90% af því sem var fyrir faraldur.

„Við töldum strax í febrúar að öll teikn væru á lofti um að flugið væri að taka við sér, og fórum þá að þjálfa fólk, sem tekur um þrjá mánuði,“ segir Guðmundur Daði. Það hafi kannski þótt djarft, en það sé að skila sér núna. 

Mynd með færslu
 Mynd: Isavia - RÚV
Svona verður umhorfs á Keflavíkurflugvelli eftir að austurbyggingin, lengst til vinstri á myndinni, verður tekin í notkun árið 2024.