Eignaðist ömmu í vindlareykjandi rommdrekkandi miðli

Mynd: Magnea Valdimarsdóttir / Aðsend

Eignaðist ömmu í vindlareykjandi rommdrekkandi miðli

04.08.2022 - 13:50

Höfundar

Magnea Björk Valdimarsdóttir kvikmyndagerðakona hefur ferðast víða um heim og búið meðal annars á Spáni, Frakklandi og Kúbu. Þar bjó hún með konu sem kallaði sig ömmu hennar og sígrátandi sambýliskonu sem saknaði sonar síns sem var í fangelsi. Magnea vinnur að nýrri heimildarmynd um jóga og kulnun og segir aldrei nei við nýjum ævintýrum.

Magnea Björk Valdimarsdóttir leik- og kvikmyndagerðakona er afar suðræn í anda. Hún hefur ferðast víða um heim, bjó meðal annars í þrjú sumur og einn vetur á Spáni fyrir tvítugt. „Ég fór með Tobbu frænku minni því Sigurður Hjartarson, sem var mikill menningarfrömuður og stofnandi reðursafnsins, var spænskukennari í MH og hann hvatti okkur til að fara að læra spænsku,“ rifjar hún upp í Tengivagninum á Rás 1 þar sem þemað var suðrænt og seiðandi. Magnea sagði sögur og valdi lög sem tengjast þemanu.

Heillast að mið- og suðuramerískum kúltúr

Í Sevilla var hún í  uppreisnargjörnum vinahópi sem fór um á hjólabrettum í skopparalegum buxum og hlustaði á rapp. „Við ætluðum bara að vera saklausar í minipilsum að drekka kokteila en svo hittum við bara skeitaragengi og þá vorum við fljótar að fara í víðar buxur.”

Fyrr en varði voru þær orðnar hluti af skeitaratöffaragenginu og héldu áfram að ferðast um Spán þar sem Magnea vandi komur sínar upp frá þessu um árabil. Hún bjó í litlu sjávarþorpi í heilt sumar og drakk í sig kúltúrinn og tungumálið. Tungumálinu hafði hún heillast af síðan hún heimsótti Mexíkó þrettán ára. „Ég heillaðist af mið- og suðuramerískum kúltúr og það var ekki aftur snúið,“ segir hún. „Ég hlýt að hafa verið í fyrra lífi eitthvað tengd þessum heimshluta. Mér líður vel þarna, líður vel í hita og það er þetta sem heillar mig.

Eignaðist ömmu í vindlareykjandi rommdrekkandi miðli

Um tvítugt ferðaðist Magnea til Kúbu þar sem hún eignaðist ömmu frá Jamaíku. „Hún var rommdrekkandi vindlareykjandi miðill sem var með yngri lover. Hún var um áttrætt og átti sextugan lover,” rifjar Magnea kímin upp. „Ég var hvíta barnabarnið hennar.”

Amman átti tvo miðaldra syni sem ráku listagallerí í Havana. Magnea varð góð vinkona þeirra sem heimsótti þá gjarnan. „Ég gat farið til þeirra og rætt við þá á heimspekilegu nótunum og drukkið kaffi,“ segir hún.

Gaf sígrátandi konunni vasadiskó

Fyrst um sinn bjó hún í kofa með vinkonu sinni en amman gat ekki hugsað sér að Magnea dveldi þar svo þær fluttu inn til hennar. Amman bjó þá með konu sem var alltaf hrygg. „Hún var sígrátandi því sonur hennar var í fangelsi,“ rifjar Magnea upp. „Ég gaf henni vasadiskó í kveðjugjöf til að gleðja hana því hún grét svo mikið.“

Heimildarmyndirnar streymdu fram

Leiklist lá vel fyrir Magneu þegar hún var ung og segist hún hafa að stórum hluta hafa alist upp í Kramhúsinu hjá Hörpu Arnardóttur. Tvítug lék hún Sölku Völku í atvinnuleikhúsi og þá hafi hún smitast endanlega af bakteríunni. Hún lék í þáttum og kvikmyndum en fljótlega fór önnur baktería að láta á sér kræla, sem var heimildarmyndagerð. „Ég elska að skapa,“ segir hún. „Ég held þetta sé í blóðinu.“

Hún fékk lánaða myndavél og gerði mynd um jaðarmenninguna sem einkennir Hverfisgötu. Aðalpersóna myndarinnar heitir Helgi, sem er öryrki. Hann hefur stundað það að blessa öll húsin við götuna en hann hefur alltaf búið í sama húsi við Hverfisgötu. Í myndinni fá áhorfendur að fylgjast með honum að störfum og komast að því af hverju hann blessar húsið. „Ég kynntist þar öldruðum listmálara og ungu listafólki á Hjartatorgi og festi það á filmu,“ segir Magnea. „Svo fer ég og geri í Bónus á Laugavegi mynd um konu sem er með þrjá geðsjúkdóma, svo aðra pólska sem var komin til Íslands til að vinna á kassa í Bónus því maðurinn hennar kom hingað.“

Hún fór til Kanarí og gerði mynd um öryrkja þar og mynd um fjórar erlendar konur sem búa á Íslandi, eru fæddar í fjórum mjög ólíkum löndum en mismunandi ástæður eru að baki komu þeirra hingað til lands.

Bjó fyrir ofan vændiskonur og hélt matarboð

Magnea er alin upp í Garðabæ og bjó þar til tuttugu ára en flutti þá í miðbæinn þar sem hún fór að leigja íbúð eftir útskrift í MH. „Hörður Torfa og kærastinn hans bjuggu í skúr í garðinum og voru með nýbakað brauð úti á garðbekk og ljúfa stemningu,“ rifjar Magnea upp um fyrstu leiguíbúðina. „Í kjallaranum voru vændiskonur fyrir neðan mig. Mjög lífleg fyrsta íbúð þar sem ég var með rósótt eldhúsgólf, hélt matarboð og bauð öllum MH-vinahópnum. Þar var dansað og svo niðri gekk á ýmsu.“

Fólkið sem fær lægri laun gefur meira af sér og endar í kulnun

Hún er enn búsett í miðbænum og vill hvergi annars staðar vera, að minnsta kosti ekki í Reykjavík. Um þessar mundir er hún að vinna að heimildarmynd um jógalífsstílinn og kulnun. Hún starfaði sem leiklistarkennari þegar hún lenti í kulnun. „Alltaf vill maður gefa af sér eins mikið og maður getur og eins og margir vita eru kennarar að brenna upp í starfi eins og heilbrigðisfólk,“ segir hún. „Þetta er synd því þetta er fólkið sem fær lægri laun en gefur svo mikið af sér. Það tekur mikinn tíma að vinda ofan af þessu, að ná sér aftur eftir að ganga svona á ónæmiskerfið. Ég held það skipti miklu máli að vekja umræðuna.“

Óþarfi að fara í jógaferð eða rándýra kakóserimóníu

Að hennar mati er óþarfi að fara í jógaferð yfir höfin eða rándýrar kakóserimóníur til að hugleiða og kúpla sig út úr hraða samfélagsins. „Það er dæmigert fyrir heiminn, það er allt gert að söluvöru,“ segir hún. „En það að fara í göngutúr í náttúnni, setjast við læk og loka augunum það er kannski kjarninn.“ Það sé allt í lagi að þiggja æfingaprógram og fara í jógatíma en mikilvægt að hlusta á eigin þarfir. 

Skiptir máli að vera opinn fyrir nýjum áskorunum

Magnea hefur sannarlega upplifað margt og á nóg eftir enda hikar hún ekki við að stökkva á tækifærin. „Það er í eðli mínu að vera opin fyrir ævintýrum og segja já við lífinu. Ef ég hefði sagt nei ég vil ekki koma með þér, við listmálarann sem bauð mér að koma í stúdíóið sitt í fyrstu heimildarmyndinni þá hefði hann ekki verið karakter í myndinni og það hefði vantað stórt element. Það skiptir máli að vera opinn fyrir að læra nýja hluti.“

Rætt var við Magneu Björk Valdimarsdóttur í Tengivagninum á Rás 1. Hér má hlýða á viðtalið við Magneu og tónlistina sem hún valdi að spila í þættinum í spilara RÚV.