Ítreka að ekki sé öruggt að fara að gosstöðvunum

Mynd með færslu
 Mynd: Þór Ægisson - RÚV
Nokkur fjöldi fólks hefur lagt leið sína að gosstöðvunum í Meradölum í dag, þvert á tilmæli almannavarna. Hjálmar Hallgrímsson hjá lögreglunni á Suðurnesjum segir að bílaplanið sé að verða yfirfullt og hefur áhyggjur af að fólk muni leggja út í vegkanti. Stöðufundi viðbragðsaðila í Grindavík lauk nú fyrir stundu. 

„Við vorum á þessum fundi að fara yfir verkefnin sem verða í dag og í kvöld. Við höfum séð það að það hefur fjölgað mikið á svæðinu og fólk er að sækja í þetta. Við hins vegar biðlum til fólks að vera ekki að koma núna. Það er norðanátt og reykurinn frá þessu liggur yfir gönguleiðina,“ segir Hjálmar. 

Hann segir að svæðinu hafi hins vegar ekki verið lokað. 

„Við höfum ekki gripið til þess að loka svæðinu. Það er ákveðinn hluti svæðisins, gamla hraunið, sem er alveg öruggt að við teljum og fólk vill sjá það. Við teljum það vera í lagi - en að labba alveg inn eftir að nýja gosinu er mjög löng leið og erfið og það er ekki fyrir alla að fara þá leið.“

Hann segir að umferð sé orðin nokkuð mikil. „Hún hefur stóraukist í dag,“ segir Hjálmar. Hann bendir á að umferðarþunginn hafi verið mjög mikill frá því að gos hófst í Geldingadölum í mars í fyrra.

„Meðan það var ekkert gos þá hafa verið að koma þarna í kringum fimm þúsund ferðamenn á viku sem labba þangað upp eftir. Og ekki minnkar áhuginn eftir að það fór að gjósa aftur.“ 

Hjálmar ítrekar að gönguleiðin sé mjög strembin. „Þetta er ekki fyrir alla eins og aðstæður eru í dag og það er það sem við erum að reyna að koma á framfæri. Og ekki vera að taka börn með sér í þessa göngu, það finnst okkur ekki vera í lagi.“