Hvassahraun ekki heppilegt í ljósi jarðhræringa

03.08.2022 - 19:46
Mynd: RÚV / RÚV
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir að umbrot á Reykjanesi hafi áhrif á fýsileika flugvallarstæðis í Hvassahrauni.

Þegar útlit sé fyrir að jarðhræringar geti staðið yfir um langt skeið sé hyggilegra að horfa til annarra svæða þegar kemur að uppbyggingu varaflugvallar fyrir millilandaflug. Hún tekur því undir með Sigurði Inga Jóhannssyni innviðaráðherra, sem viðraði sömu skoðun í samtali við Morgunblaðið í dag. Í haust er von á bráðabirgaðaniðurstöðum starfshóps sem hefur kannað fýsileika flugvallarstæðisins.

Hafa kortlagt hugsanleg áhrif á innviði

Starfshópur þvert á ráðuneyti hefur verið að störfum frá í júní þegar jörð fór að bærast á ný. Katrín segir hópinn hafa kortlagt áhrif hugsanlegra eldsumbrota á samgöngumannvirki, vegi, flugsamgöngur og ekki síður orkumannvirki.

„Eins og staðan er núna er gosið á tiltölulega heppilegum stað,“ segir Katrín. Það sé gott enda erfitt að ráðast í fyrirbyggjandi aðgerðir þegar ekki er vitað hvar hraunið kemur upp næst.

Fram kom í máli Magnúsar Tuma Guðmundssonar, prófessors í jarðeðlisfræði á upplýsingafundi almannavarna í dag, að ekki sé útlit fyrir annað í bráð en að hraunið renni allt í Meradali og því sé ekki hætta á að gosið ógni innviðum í bráð.

Almannavarnakerfið sýnir styrk sinn

Katrín segir viðbrögð við gosinu hafa sýnt enn einu sinni hve öflugt almannavarnakerfi Íslendinga er. „Við sjáum það að allir viðbragðsaðilar fara af stað um leið og gosið hefst,“ segir Katrín. Vegna óvissu um þróun gossins séu langtímaviðbrögð þó snúna

Björn Malmquist
Fréttastofa RÚV
alexandergk's picture
Alexander Kristjánsson
Fréttastofa RÚV