
Vandræði með að leysa út lyfseðla vegna kerfisbilunar
Fyrr í dag var greint frá því að þjónusta lyfjagáttarinnar lægi niðri og að ekki hefði verið mögulegt að leysa út lyf í apótekum né lyfjaverslunum klukkustundum saman frá því um miðjan dag. Samkvæmt heimildum fréttastofu liggur lyfjagáttin enn niðri, en unnið er að viðgerð.
Í tilkynningu frá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, kemur fram að ekki sé um tölvukerfi Heilsugæslunnar að ræða heldur kerfi sem heilsugæslan nýtir til að senda rafræna lyfseðla til apóteka og sem læknar nota til að senda frá sér rafræna lyfseðla.
Mikill fjöldi rafrænna samskipta og skeyta fer í gegnum kerfið sem um ræðir á degi hverjum. Meðal þeirra eru meira en 1,3 milljónir lyfseðla, 200 þúsund læknabréf og 13 þúsund umsóknir um lyfjaskírteini.
Slæmt fyrir skjólstæðinga
Jónas Guðmundsson, staðgengill forstjóra Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, segir að atvikið sé fyrst og fremst slæmt fyrir skjólstæðinga Heilsugæslunnar sem treysti á að geta útleyst lyf í apótekum.
„Svona bilanir eru sjaldgæfar og við treystum því að fyrirtækin sem reka þetta kerfi komi því í lag fljótt og örugglega. Vonandi hafa sem fæstir hafi orðið fyrir óþægindum vegna þessarar bilunar,“ segir Jónas.
Kerfið hefur verið í notkun hérlendis frá árinu 2007 og eru allar heilbrigðisstofnanir landsins, apótek, Tryggingastofnun, Sjúkratryggingar Íslands og Embætti landlæknis tengd netinu.
Lyfseðlar sem læknar hafa þegar sent í gegnum kerfið munu skila sér sjálfkrafa til apótekanna þegar kerfið er komið í gang á nýjan leik, segir í tilkynningunni.