„Þetta minnir okkur á af hverju hinsegin dagar eru til“

Mynd: RÚV / RÚV

„Þetta minnir okkur á af hverju hinsegin dagar eru til“

02.08.2022 - 13:09

Höfundar

„Þetta er langur aðdragandi, það er eiginlega bara ein hátíð kláruð og þá er orðið tímabært að fara að huga að þeirri næstu,“ segir Gunnlaugur Bragi Björnsson formaður Hinsegin daga sem eru settir í dag.

Hinsegin dagar í Reykjavík hefjast í dag með þéttri og litríkri dagskrá. Þar verður fjölbreytileikanum fagnað í vikunni með ýmsum viðburðum á sviði menningar og fræðslu. Gunnlaugur Bragi Björnsson formaður Hinsegin daga mætti í Morgunútvarpið og spjallaði um undirbúninginn.  

Síðustu tvö ár settu samkomutakmarkanir svip sinn á hátíðina og ýmsar breytingar eru komnar til að vera. Þá má nefna sjónvarpsþátt RÚV í tengslum við hátíðarhöldin sem sýndur var á síðasta ári og birtist aftur á skjám landsmanna í ár. 

Gleðigangan verður svo á sínum stað á laugardag. Hún verður farin frá Hallgrímskirkju, niður regnboga á Skólavörðustíg og í Bankastræti og endar í Hljómskólagarðinum þar sem hátíðartónleikar taka við.  „Hún verður á sínum stað á laugardaginn, það er nú ekkert sem fær því stoppað héðan af,“ segir Gunnlaugur.

Í dagskrá Hinsegin daga er lögð rík áhersla á fræðslu með umræðufundum og pallborðsumræðum sem í fyrsta sinn er dregin saman í svokallaða Regnbogaráðstefnu á Borgarbókasafninu í Grófinni á miðvikudag og fimmtudag. Gunnlaugur segir ýmis mál á dagskrá: „Við erum að tala um alls konar hluti. Við erum að tala um hinsegin í tölvuleikjaheimum, við erum að tala um heimilisofbeldi og hinsegin fólk, það að koma seint út úr skápnum, að vera hinsegin úti á landi og svo framvegis.“ 

Undanfarið hefur borið á umræðu um bakslag í baráttu hinsegin fólks. „Það minnir okkur á af hverju Hinsegin dagar eru til. Þetta eru ekki bara gleðidagar. Undirtónninn er alvarlegri og markmiðið er áframhaldandi réttindabarátta sem að virðist ekki síst mikilvægari nú en áður,” segir Gunnlaugur. Þetta hafi ekki bein áhrif á dagskrána en geri markmiðið enn augljósara og birtist ef til vill í Gleðigöngunni. Þar er fólki frjálst að vekja athygli á hverju sem því er hugleikið.

Hinsegin dagar eru gleði- og baráttudagar alls hinsegin fólks en líka hugsaðir fyrir öll þau sem vilja styðja mannréttindabaráttu hinsegin fólks og gleðjast saman. Gunnlaugur segir Hinsegin daga vera sérstaka á heimsvísu hvað þetta varðar. „Þetta hefur orðið ofboðslega mikil samfélagshátíð, þetta er ekki bara hinsegin samfélagið að fagna og gleðjast saman, heldur hátíðin okkar allra,“ segir hann. Staðan væri önnur í réttindabaráttu hinsegin fólks á Íslandi ef ekki nyti við stuðnings fólks. Stuðningur sé jafnvel enn mikilvægari núna.  

Dagskrána alla má finna inni á hinsegindagar.is og það ættu allir að geta fundið eitthvað við sitt hæfi.  

Rætt var við Gunnlaug Braga Björnsson í Morgunútvarpinu.

Tengdar fréttir

RÚV polski

Bankastræti będzie Tęczową Ulicą roku

Höfuðborgarsvæðið

Bankastræti verður Regnbogastræti á Hinsegin dögum