Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Kvikugangurinn liggur mjög grunnt

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Nýjar gervitunglamyndir sýna mjög greinilegar kvikuhreyfingar sem staðsettar eru norðaustur af gosstöðvunum í fyrra, milli Fagradalsfjalls og Keilis. Jafnframt sýna myndirnar að langstærsta aflögunin á Reykjanesskaganum yfir verslunarmannahelgina stafar af þessu kvikuinnskoti. Kvikugangurinn liggur mjög grunnt eða í kringum 1 km undir yfirborðinu og er kvikuinnflæði ört.

Þetta sýna aflögunarlíkön sem gerð voru í dag. Kvikuinnflæðið er nálægt því að vera á tvöföldum hraði frá því sem var í aðdraganda fyrra goss. Líkurnar á því að það gjósi á svæðinu í kringum Fagradalsfjall á næstu dögum eða vikum hafa því aukist og eru taldar verulegar.

Viðbragðsaðilar tilbúnir að takast á við gos

Almannavarnir héldu upplýsinga- og samráðsfund í dag vegna jarðhræringa á Reykjanesskaga þar sem farið var yfir þessar myndir. Á fundinn voru boðaðir fulltrúar samhæfingar- og stjórnstöðvar, aðgerðastjórna um land allt, Veðurstofu Íslands og vísindasamfélagsins.

Það kom fram á fundinum að allt viðbragð á Suðurnesjum er reiðubúið til að takast á við eldgos ef til þess kæmi. Nú sé til staðar dýrmæt reynsla úr fyrra eldgosi auk þeirrar þekkingar og viðbragðsáætlana sem til staðar voru fyrir. 

astahm's picture
Ásta Hlín Magnúsdóttir