Hóta hernaðaríhlutun vegna heimsóknar Pelosi

02.08.2022 - 17:35
Mynd: EPA / EPA
Heimurinn stendur frammi fyrir vali, milli einræðis og lýðræðis, sagði Nancy Pelosi forseti fulltrúadeildar Bandaríkjaþings, þegar hún lenti á Songshan flugvellinum í Taipei, höfuðborg Taívan síðdegis í dag.

Pelosi ítrekaði einarðan stuðning Bandaríkjanna við Joseph Wu utanríkisráðherra Taívan. Hún sagði stoðir lýðræðis vera rótgrónar í Taívan og að landið væri mikilvægur samstarfsaðili á svæðinu.

Pelosi er á ferðalagi um Asíu, en heimsókn hennar til Taívan hefur vakið harkaleg viðbrögð kínverskra stjórnvalda og orðið til þess að samskipti stjórnvalda í Peking og Washington eru við frostmark.

Wu Qian, talsmaður varnarmálaráðuneytis Kína, segir að sveitir kínverska hersins séu á hæsta viðbúnaðarstigi og hyggist beita afmörkuðum hernaðaraðgerðum, sem viðbrögðum við heimsókn Pelosi. 

AFP fréttaveitan greinir frá og hefur eftir Qian að stjórnvöld í Kína fordæmi heimsóknina og telji afskipti Bandaríkjanna hættuleg. Kína muni bregðast við með því að vernda fullveldi og landamæri Kína.

Utanaðkomandi afskipti verði ekki liðin né stuðningur við aðskilnaðarsinna sem berjist fyrir sjálfstæði Taívan.

Leikur að eldi

Í yfirlýsingu kínverska utanríkisráðuneytisins kemur fram að stjórnvöld í Kína telji að Bandaríkin holi niður opinberri stefnu ríkisins um sameinað Kína.

Þessi afskipti, að leika sér að eldi, séu einstaklega hættuleg. Þeir sem leika sér að eldinum, verða honum sjálfir að bráð, segir í yfirlýsingunni. 

Aukin hernaðarumsvif Kína á svæðinu hafa valdið áhyggjum um fyrirætlanir Kínverja gagnvart Taívan, en Kínverjar hafa síðustu misseri aukið vígbúnað sinn nærri Taívan og ítrekað rofið lofthelgi landsins með lágflugi orustuþotna. 

Stjórnvöld í Taívan líta á þessi umsvif Kína sem ögrun. Þau skilgreina sig sem sjálfstætt ríki en stjórnvöld í Kína líta á landið sem hérað innan Kína og á núverandi stjórnvöld á Taívan sem aðskilnaðarsinna.

Heimsækir safn um mannréttindabrot Kínverja

Pelosi fundar með forseta Taívan í fyrramálið og heimsækir taívanska þingið í kjölfarið. Þá hyggst hún sækja heim safn um mannréttindabrot Kínverja gegn taívönsku þjóðinni.

Pelosi er valdamesti stjórnmálamaður Bandaríkjanna til að heimsækja Taívan síðan árið 1997, þegar þáverandi forseti fulltrúadeildarinnar, Newt Gingrich, heimsótti landið.

Þá mun Pelosi verja nóttinni á Grand Hyatt-hótelinu í miðborg Taipei, þar sem stuðningsmenn kínverskra stjórnvalda hafa raðað sér upp með mótmælaskilti. „Farðu heim, stríðsæsingamaður,” hrópa sumir mótmælendanna á meðan aðrir traðka á bandaríska fánanum.

Heimsókn Pelosi hefur enda valdið embættismönnum í Hvíta húsinu hugarangri. Joe Biden Bandaríkjaforseti lét hafa eftir sér í síðustu viku, að hann vissi hreinlega ekki hvað honum ætti að finnast um heimsókn flokkssystur sinnar, en sagðist þó ekki geta hindrað för hennar.

Í spilaranum hér að ofan má horfa á myndskeið úr kvöldfréttum um málið.