Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Gifsplötur hrundu úr lofti Smáralindar

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Gifsplötur og flísar í lofti Vetrargarðs verslunarmiðstöðvarinnar Smáralindar í Kópavogi féllu tugi metra niður á gólf, þegar þriðji öflugi jarðskjálftinn í kvöld reið yfir, um klukkan hálf tólf.

Samkvæmt sjónarvottum sem höfðu samband við fréttastofu og voru í Smáralindinni á þessum tíma, var mikil mildi að enginn var undir plötunum þegar þær hrundu niður, enda fallið hátt og plöturnar þungar.

Yfirfarnar mælingar Veðurstofu benda til þess að skjálftinn sem reið yfir klukkan hálf tólf hafi verið 4,8 að stærð og upptök hans norðnorðaustur af Krýsuvík, á um þriggja kílómetra dýpi.

Samkvæmt upplýsingum fréttastofu hafa skjálftarnir þrír í kvöld fundist víða á höfuðborgarsvæðinu, í miðborg Reykjavíkur og á Suðvesturhorninu auk þess sem Veðurstofan hefur fengið tilkynningar um að skjálftinn hafi fundist allt frá Stykkishólmi að Hvolsvelli.

Mynd með færslu
 Mynd: Hjalti Haraldsson - RÚV
Gifsplötur hrundu úr lofti Smáralindar þegar skjálfti reið yfir um hálf tólf í kvöld
Mynd með færslu
 Mynd: Hjalti Haraldsson - RÚV