„Það er líklegast að það verði yfir þessum kvikugangi sem er að myndast í jarðskorpunni. Og hann nær eiginlega frá gosstöðvunum frá því í fyrra og þrjá kílómetra í áttina að Keili þannig að það svæði er líklegast,“ segir Freysteinn.
Freysteinn segir líklegt að gjósi á þessum stað geti hraun náð að Reykjanesbrautinni. Það sé þó alls ekki víst að það gjósi á næstu dögum. Ástæðan fyrir þessari viðvörun vísindamanna nú sé þetta mikla innstreymi. „Það er meiri innstreymishraði og það er ástæðan fyrir þessari viðvörun. Þetta samsvarar um 50 milljónum rúmmetra sem er líklegasta talan sem kemur úr líkanareikningum hjá vísindamönnum Veðurstofu Íslands. Það er tífalt meðalrennsli Elliðaáa til samanburðar. En það er að streyma inn í jarðskorpuna og af því að rennsli er meira þá gæti orðið meiri kraftur í þessu eldgosi en eðli eldgossins yrði langlíklegast það sama, hraungos með gígum og að rennsli myndi afmarkast í ákveðna gíga en það gæti verið að koma meira upp úr þeim og þá gæti komið meira gas og hugsanlega eitthvað örlítið af gjósku“, segir Freysteinn.