Fékk taugaáfall og hætti að spila í tíu ár

Mynd: Ragnheiður Jónsdóttir / Aðsend

Fékk taugaáfall og hætti að spila í tíu ár

02.08.2022 - 15:54

Höfundar

Ragnheiður Jónsdóttir, tónmeistari, fann sig ekki í klassísku tónlistarnámi, þar sem hún upplifði að áherslurnar væru fyrst og fremst á tæknilega fullkomnun og stáltaugar en minna máli skipti hvort maður hefði hugmyndir eða væri skapandi. Eftir að hafa fengið taugaáfall og ekki spilað í tíu ár fann hún sinn heimavöll og er nú fremsti tónmeistari Íslendinga.

Ragnheiður Jónsdóttir, tónmeistari, var gestur í Tengivagninum á Rás 1. Titillinn tónmeistari kemur úr þýsku og þýðir í raun upptökustjóri og hljóðtæknir í klassískri tónlist. Ragnheiður er ein þriggja Íslendinga sem hafa lært að verða tónmeistarar, og næst á eftir Bjarna Rúnari Bjarnasyni, sem var tónmeistari Ríkisútvarpsins í áratugi.

Fékk taugaáfall í klassísku tónlistarnámi

Ragnheiður lærði fyrst á víólu og fór til Hollands í framhaldsnám í víóluleik. „Það endaði kannski ekki alveg nógu vel. Ég fékk líklega taugaáfall, og spilaði ekki í 10 ár. Og svo fór ég í tónlistarfræði eftir víóluna, af því að ég þurfti aðeins að finna mig og það þurfti að vera tónlist. Þetta var svona smá sjálfsmyndarkrísa, að missa tenginguna við víóluna, smá svona; ef þú ert ekki víóluleikari, hver ertu þá? Svo ég fór í tónlistarfræði og það var gaman, ég byrjaði að læra að syngja þar, og var í píanótímum. En ég saknaði alltaf svona alvöru „hands-on“ vinnu, við tónlistina, það var ekki alveg nóg fyrir mig að vera að skrifa um tónlist,“ segir hún.

Þá segist Ragnheiður hafa farið að pæla í tónmeistaranum. „Hann sameinaði einhvern veginn alla mína tónlistarreynslu í einu fagi. Ég hef alltaf haft mikinn áhuga á heildinni, sándi, hljómsveitarstjórn, öllu þessu þar sem maður er ekki bara að fókusera á eitt hljóðfæri, heldur heildina.“ Hún segist hafa fundið lendingu í tónmeistaranum. „Hann hentar mínum persónuleika miklu betur, mér fannst erfitt að performera, það að allir séu að horfa á mig er ekki eitthvað sem mér fannst þægilegt. Það er eiginlega fullkomið fyrir mig að fá að vera bakvið tjöldin, en samt að að vera með puttana í öllu.“

Vinnur með náttúrulegt rými frekar en þurrt stúdíó

Ragnheiður hefur tekið upp talsvert magn af plötum, aðallega klassíska tónlist. „Tónmeistarinn er eiginlega bara þannig að þú lærir að vinna með lifandi akústík og taka hlutina upp á einum stað og allir eru að spila. Þannig vinnur maður líka oft með þjóðlagatónlist og ýmsar aðrar tegundir tónlistar líka. Þá er unnið í rými og með rýmið, í staðinn fyrir að vera í þurru stúdíói og taka allt í lögum. Þannig vinn ég með heilan tónlistarhóp í einu og nota náttúrulegu hljóðvistina, í staðinn fyrir að búa hana til eftirá, eins og er alltaf gert þegar þú ert í stúdíói.“ 

Ragnheiður segist elska gömul hljóðfæri. „Þau eru oft lágvær, og stundum eru einhver aukahljóð með, sem mér finnst svo sjarmerandi. Hljómurinn tekur mann beint í einhvern annan heim. Þau eru oft svolítið leyndardómsfull. Þau henta svona upptökum svo vel því þar er hægt að fá nálægð við þessi stundum skrýtnu hljóð sem þessi gömlu hljóðfæri gefa frá sér.“

Henni þykir gaman að gera tilraunir í tónlistinni. „Ég hef ekki endilega mestan áhuga á að vinna með einhverjum svona stórstjörnum sem eru að spila Mozart og Brahms geðveikt vel, þó svo það sé auðvitað geggjað líka, en það er þetta skrýtna og beyglaða, og svo ný tónlist, sem mér finnst mest spennandi, því þá er líka hægt að gera tilraunir með svo margt, líka í upptökuferlinu.“

Tónmeistarinn þarf að geta beitt sálfræði líka

Ragnheiður segist finna fyrir persónuleika flytjandans í upptökuferlinu. „Stundum þar ég að finna út úr því hvernig ég á að tala við fólk, fólk er með mismunandi þarfir, sumir vilja fá mjög nákvæmar athugasemdir, t.d. um einstakar nótur til eða frá, en aðrir vilja að ég pakki hlutunum inn, kannski án þess að segja það, en þau vilja ég svona feli það sem ég er að reyna að segja. Þannig að þetta er kannski pínu eins og sálfræðivinna stundum. Það eru fáir sem njóta þess að vera í upptökum, þetta er oftast pínu erfitt fyrir alla,“ segir hún og bætir því við að hún sé mikill minimalisti. „Ég reyni að nota eins fáa hljóðnema og ég get. Stundum er ég bara með eitt rýmispar, og er ekki með neina hljóðnema alveg ofan í hljóðfærunum. En þá þarf ég oft að færa fólk svolítið til á staðnum, að blanda með staðsetningum flytjenda. Það verður svolítið áhættuatriði stundum.“ 

Ragnheiður segist ekki geta tekið of mikið tillit til þess að margir hlusti helst á tónlist í misgóðum heyrnartólum eða hátölurum nú á dögum.  „Ég hef auðvitað enga stjórn á því hvernig fólk hlustar á tónlist, en helst myndi ég búa til svona bíóhús þar sem fólk myndi fara og hlusta á plötur, þar sem fólk myndi bara koma og kaupa miða og fá sér sæti og njóta þess að hlusta á „immersive“ upptökur“. Ég er ekki að hljóðblanda fyrir bílahátalara eða snjallsímahátalara, því það myndi hljóma hræðilega í góðum hátölurum, þannig að allt sem ég sendi frá mér er í hæstu mögulegu gæðum og lítið eða ekkert þjappað. En þá ertu ekkert endilega að fara að heyra bassann í bílnum þínum, þú þarft bara að fara heim og fá þér betri græjur.“

Hefur þurft að biðja karla um að leyfa sér að vinna vinnuna sína

Ragnheiður segir mjög fáar konur í þessu fagi, og að tónmeistarinn sé líka mjög lítið fag, svo það sé erfitt fyrir sig að meta hvort það halli á konur í sinni stétt.

„En ég er búin að lenda í alls konar. Það fer eftir týpum. Það eru þessar týpur sem finnst þeir þurfa að útskýra hluti fyrir mér og sýna mér hvernig ég nota mækana mína, sem ég eyddi fimm árum í að læra að nota. Ég er meira að segja að kenna upptökustjórnun í tónmeistaranáminu í Köben. Og þó svo fólk viti þessa hluti þá er það samt að útskýra fyrir mér, stundum, hvernig ég á að gera vinnuna mína, og ég held að það sé miklu meira af því að ég er kona en nokkuð annað. Ég hef lent í hljómsveitarstjórum sem fara að reyna að taka yfir mína vinnu líka og stjórna upptökunum samhliða hljómsveitarstjórninni og þá hef ég þurft að taka samtal í pásunni og segja bara hey, leyfðu mér að vinna vinnuna mína, ég leyfi þér að vinna þína vinnu. Ég virðist fara fyrir brjóstið á sumum þegar þeir sjá mig og hvernig ég lít út. Ég passa ekki inn í kassann og þeir hafa ekki hitt neinn sem lítur út eins og ég í þessu starfi, þeir eru náttúrulega bara vanir einhverjum eldri körlum.“

Heimur klassískrar tónlistar er skrýtinn og erfiður

Ákveðin íhaldssemi í heimi klassískrar tónlistar gæti hafa orsakað það að Ragnheiður fann sig ekki í honum á sínum tíma. „Þetta er náttúrulega rosalega skrýtinn heimur og erfiður. Eins og í mínu námi í Hollandi. Þar var beinlínis verið að reyna að ýta undir samkeppni meðal nemenda. Maður var látinn spila sama verk og einhver annar í hóptímum, bara til þess að geta borið það saman. Og það skipti eiginlega ekki máli hver maður var sem karakter, eða hvað maður hafði fram að færa, eða hvaða hugmyndir maður hafði eða hvort maður var skapandi. Það eina sem skipti máli var hversu tæknilega góður maður var á hljóðfærið sitt og hversu miklar stáltaugar maður hafði. Allir sem voru viðkvæmari eins og ég brotnuðu kannski bara einhvern veginn, eða fóru að gera eitthvað allt annað. Mér finnst mikilvægt að þeir sem kannski ekki finna sig í þessum heimi en tónlistin er samt ástríða hjá þeim, að þeir viti að það eru aðrar leiðir.“ 

Ætlaði að fara í verkfræði en tónlistin var of sterk

Ragnheiður hélt að hún myndi snúa baki við tónlist. „Þegar ég hætti á víóluna átti ég vini í skólanum sem hættu bara að tala við mig. Það var enginn skilningur, það var bara, já hún gafst upp, hún er ekki nógu sterk.“ 

Hún fór að bæta við stúdentsprófið sitt og ætlaði í verkfræði. „En svo var þetta bara alltof sterkt, ég gat ekki hugsað mér að fara í verkfræði, það varð að vera tónlist. Og svo tók þetta mig alveg nokkur ár fyrir mig að finna mína leið, eða hún kannski bara fann mig. Eiginlega síðan ég byrjaði í tónmeistaranum þá er þetta bara búið að vera einhvernveginn rétt, fyrir mig.“

Rætt var við Ragnheiði Jónsdóttur í Tengivagninum á Rás 1. Hægt er að hlusta á viðtalið í heild sinni í spilaranum.

Tengdar fréttir

Bókmenntir

Súrrealísk frásögn sem krefst athygli og yfirlegu

Menningarefni

„Maður er búinn að taka hjartað og setja á borðið“