Bankastræti verður Regnbogastræti á Hinsegin dögum

02.08.2022 - 01:44
Mynd með færslu
 Mynd: Rúnar Snær Reynisson - Rúv
Baráttu- og fræðsluhátíð hinsegin samfélagsins, Hinsegin dagar í Reykjavík eða Reykjavík Pride, hefst í dag. Hefð er fyrir því setja hátíðina formlega með því að stuðningsfólk hennar máli stræti í miðborg Reykjavíkur í litum regnbogans. Engin undantekning verður á því í ár, þegar Bankastræti verður sveipað regnbogans litum, frá Ingólfsstræti í átt að Lækjargötu.

Bankastrætið verður þar með Regnbogastræti næstu daga, á meðan hátíðin stendur yfir, til þess að undirstrika mikilvægi mannréttindabaráttu hinsegin fólks og hvetja fólk til þátttöku.

Setningin hefst á gatnamótum Bankastrætis og Ingólfsstrætis klukkan tólf á hádegi. Gunnlaugur Bragi Björnsson, formaður Hinsegin daga og Eliza Reid forsetafrú, taka meðal annarra þátt í málningarvinnunni.

Samkvæmt tilkynningu frá aðstandendum er öllum velkomið að grípa pensil eða rúllu, taka þátt í litagleðinni og umbreyta gráu Bankastrætinu í litríkt Regnbogastræti.

Gleðigangan á laugardaginn

Hátíðin stendur í sex daga og nær hámarki með Gleðigöngunni sem gengin verður í miðborg Reykjavíkur næstkomandi laugardag. Slegið verður upp útihátíð og tónleikum í Hljómskálagarðinum í kjölfar göngunnar.

Að sögn aðstandenda eru sex dagar af fjölbreyttri dagskrá framundan, þar sem meðal annars verður í fyrsta skipti haldin Regnbogaráðstefna.

Dagskrá Hinsegin daga 2022 má finna í heild sinni á vef Hinsegin daga.