22% af skatti fyrirtækja tapast til skattaskjóla

02.08.2022 - 19:48
Bresku Jómfrúreyjar þykja mikil paradís fyrir fólk og fé. - Mynd: Denise / Flicker
Ríkissjóður Íslands verður af um það bil 22 prósentum af áætluðum fyrirtækjaskatti vegna skattaundanskota á hverju ári, samkvæmt nýbirtri vísindagrein, og hlutfallið hér á landi er það næsthæsta innan OECD. Fyrrverandi ríkisskattstjóri segir verulega vanta ráðstafanir til að draga úr skattundanskotum á Íslandi.

Greinin heitir The Missing Profits of Nations og er skrifuð af þremur hagfræðingum, Thomas R. Tørsløv, Ludvig S. Wier og Gabriel Zucman. Þar er áætlað að íslensk fyrirtæki flytji um það bil fimmtung hagnaðar úr landi á hverju ári.

15 milljarðar af fyrirtækjaskatti tapast

Sé miðað við árið 2019 má ætla að hagnaði upp á um það bil 75 milljarða íslenskra króna hafi verið skotið undan skatti. Tapaðar skatttekjur ríkisins vegna þess hafi verið um 15 milljarðar króna sem samsvara um það bil 22 prósentum af tekjum ríkisins vegna fyrirtækjaskatts. 

Áætlað er að tæp 40 prósent af hagnaði alþjóðafyrirtækja í heiminum séu flutt til skattaskjóla, og að undanskotin rýri skatttekjur í heiminum um 10 prósent;  22 prósent á Íslandi, 8 prósent í Noregi, 13 í Svíþjóð, 8 í Danmörku, 14 í Bandaríkjunum og 10 í Kanada, svo eitthvað sé nefnt. Samkvæmt greininni er Þýskaland eina landið þar sem tapaðar tekjur af fyrirtækjaskatti eru hlutfallslega hærri en á Íslandi, 28 prósent.  

Lengi vel hefur ekkert verið gert

„Þvi miður hefur gengið illa að vinna á þessu á alþjóðavettvangi en það vantar líka mikið upp á að það verði gerðar ráðstafanir líka hér á landi til þess að draga úr þessu. Það er eiginlega bara tvennt sem þarf að gera. Það þarf að laga skattareglurnar þannig að það verði sem minnst um þetta og sem erfiðast að framkvæma þetta. Og hins vegar þarf að styrkja skattyfirvöld til að fylgjast  með þessum reglum, og framkvæmd á þeim. Lengi vel hefur ekki neitt verið gert til að setja undir þennan leka hvað innanlandsreglur varða,“ segir Indriði H. Þorláksson, fyrrverandi ríkisskattstjóri. 

Indriði bendir á að í framhaldi af fréttaflutningi af panamaskjölunum hafi verið skrifaðar skýrslur, „en þær hafa ekki leitt til neinna verulegra ráðstafana til að hemla á móti þessu,“ segir hann. 

Greinin hafði áður verið birt sem vinnuskjal en hefur nú verið uppfærð, og við það hækkuðu áætlaðar tapaðar skatttekjur hér á landi. 

En hvernig komast hagfræðingarnir að þessari niðurstöðu? 

Þórólfur Matthíasson, prófessor í hagfræði við Háskóla Íslands, útskýrir að þeir skoði hagnaðarhlutfall innlendra og erlendra fyrirtækja í skattaskjólum. Þeir komist að því að hagnaðarhlutfall, þ.e.a.s. hagnaður á hverja krónu fjármagns sem bundið er í fyrirtækinu sé hærra, jafnvel margfalt hærra í erlendum fyrirtækjum í skattaskjólum en í innlendum fyrirtækjum. 

„Þ.e.a.s. fyrirtæki í skattaskjóli sem fyrst og fremst starfa fyrir heimamenn, baka brauðið þeirra, leigir þeim húsnæði og svo framvegis, skila álíka miklu í tekjur á hverja krónu sem í þeim er bundin og samskonar fyrirtæki í löndum þar sem tekjuskattur fyrirtækja er miklu hærri.  Erlend fyrirtæki í skattaskjólum sem selja innan gæsalappa sérfræðiþjónustu eða leigja afnot af einkaleyfi græða hlutfallslega margfalt,“ segir hann.

Svo skoði þeir útflutning skattaskjóla á völdum þjónustuþáttum til landa sem ekki teljast skattaskjól.  „Tilgáta þeirra er að þegar fjölþjóðlegt fyrirtæki flytur fé til skattaparadísar gerist það með því að dótturfélag hins fjölþjóðlega fyrirtækis í skattaskjólinu sendi deild félagsins í háskattalandi reikning fyrir „veittri þjónustu“, t.d. sérfræðiþjónustu, lögfræðiþjónustu, leyfisgjald fyrir að nota einkréttarvarið efni.  Við þekkjum sumt af þessu úr umfjöllun um mútumál í Namibíu. Síðan tengja þeir þetta tvennt saman, umfang óeðlilegs hagnaðar erlendra fyrirtækja í skattaskjólum og útflutning á völdum þjónustuþáttum frá einstökum háskattalöndum til skattaskjóla,“ segir hann. 

„Þannig komast þeir að því að íslensk fyrirtæki hafi flutt sem svarar 20% af hagnaði sínum úr landi og að hafi „rétt“ verið staðið að málum ættu tekjur af tekjuskatti fyrirtækja á Íslandi að vera um 22% hærri en þau eru í raun,“ segir Þórólfur.

Í spilaranum hér að ofan er hægt að horfa á umfjöllun um málið í kvöldfréttum.

hildurmj's picture
Hildur Margrét Jóhannsdóttir
Fréttastofa RÚV