Vilja auka olíuvinnslu í Afríku

01.08.2022 - 23:49
epa09730302 African heads of state gather for a group photograph at the 35th Ordinary Session of the African Union (AU) Assembly in Addis Ababa, Ethiopia, 05 February 2022.  EPA-EFE/STRINGER
Frá leiðtogafundi Afríkusambandsins í Eþíópíu 5. febrúar 2022 Mynd: epa
Búist er við því að leiðtogar Afríkuríka þrýsti á aukna olíu- og gasvinnslu í heimsálfunni á næstu loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna. Ríki heims mætast í Egyptalandi í nóvember til þess að ræða viðbrögð við loftslagsvánni.

The Guardian greinir frá því í kvöld að Afríkuleiðtogar vilji nú auka vinnslu jarðefnaeldsneytis í heimsálfunni vegn snarhækkandi orkuverðs. Breski miðillinn kveðst hafa í fórum sínum skjal frá Afríkusambandinu, sem telur flest ríki álfunnar.

Í skjalinnu segir að fjöldi Afríkuríkja vilji haldast í hendur á ráðstefnunni til þess að styrkja samningsstöðu sína. Þau vilji bæta í framleiðslu jarðefnaeldsneytis í álfunni. Búist er við því að allnokkur Evrópusambandsríki muni styðja slíkar tillögur, enda orkuverð í hæstu hæðum.

Aðildarríki Afríkusambandsins funda í Addis Ababa í Eþíópíu síðar í vikunni þar sem þau annað hvort samþykkja eða hafna að berjast fyrir aukinni eldsneytisvinnslu.

Loftslagsbaráttufólk hefur lagst gegn þessari hugmynd enda þarf mannkyn að draga verulega úr notkun olíu og gass til þess að halda hlýnun jarðar innan við eitt og hálft stig, eins og stefnt er að.

Þórgnýr Einar Albertsson