Röð gikkskjálfta frá klukkan ellefu - sá stærsti 4,8

Mynd með færslu
 Mynd: Dagný Hulda Erlendsdóttir - RÚV
Jarðskjálfti af stærðinni 4,8 varð um klukkan hálf tólf í kvöld. Skjálfti 3,7 að stærð varð þegar klukkan var 11 mínútur gengin í tólf og fjórum mínútum síðar varð annar sem var nokkuð stærri eða um það bil 4 að stærð.

Margir stórir skjálftar hafa riðið yfir frá því klukkan ellefu sem Sigríður Kristjánsdóttir náttúruvársérfræðingur á Veðurstofunni kallar knippi af gikkskjálftum

Fyrri skjálftarnir tveir eiga upptök sín um tvo kílómetra vestan Kleifarvatns, samkvæmt upplýsingum náttúruvársérfræðings á Veðurstofu Íslands. Fréttastofu hafa borist tíðindi um að skjálftarnir hafi fundist mjög víða.

Jarðskjálfti sem mældist 3,4 samkvæmt fyrstu tölum á mælum Veðurstofunnar varð átján mínútur gengin í eitt. Fréttastofu berast iðulega tilkynningar um að rjúki úr eldstöðvunum í Geldingadölum. Sigríður segir enn engin ummerki um gos og kveður ólíklegt að gos hefjist á sama stað og í fyrra.

Hún segir til að mynda að eftir rigningu bæti í gufustróka við gosstöðvarnar. Þegar stóri þriðji skjálftinn reið yfir féllu flísar úr lofti verslunarmiðstöðvarinnar Smáralindar að sögn sjónarvotts. 

Fréttin var uppfærð klukkan 00.34 með frekar upplýsingum um skjálftahrinuna.