„Nú veit ég hvernig það er að vera fótboltastjarna“

Mynd með færslu
 Mynd: Katrín Árnadóttir - RÚV

„Nú veit ég hvernig það er að vera fótboltastjarna“

01.08.2022 - 14:31
Karlotta Sif Sveinsdóttir, níu ára snót úr Reykjavík, datt heldur betur í lukkupottinn þegar hún var valin í til þess að taka þátt í því að leiða landslið Þýskalands og Englands inn á Wembley-leikvanginn í Lundúnum, fyrir úrslitaviðureign liðanna á Evrópumóti kvenna í fótbolta.

Leikurinn fór fram í gær fyrir framan metfjölda áhorfenda á þessum glæsilega og sögulega íþróttavelli, þjóðarleikvangi Breta, þar sem helstu fótboltastjörnur heims hafa sýnt listir sínar með knöttinn um áratuga skeið undir flóðljósunum.

Rúmlega 87 þúsund fótboltaaðdáendur höfðu tryggt sér aðgöngumiða á úrslit mótsins og hafa aldrei verið fleiri á úrslitaleik Evrópumótsins í knattspyrnu, karla eða kvenna.

Ævintýri líkast

Katrín Árnadóttir, móðir Karlottu Sifjar, segir í samtali við fréttastofu að síðustu dagar hafi verið ævintýri líkast. Þær mæðgur hafi verið í góðu yfirlæti, með einkabílstjóra og á flottu hóteli í Lundúnum. Ekki hafi vafist fyrir þeim að njóta ferðarinnar eins og stórstjörnur.

Þegar stóri dagurinn rann upp í gær og úrslitaleikurinn á sjálfum Wembley nálgaðist, hafi þær fengið fylgd á völlinn og bestu sætin meðal þeirra tugþúsunda sem fylgdust með leiknum. Að ganga inn á leikvanginn þar sem allur þessi fjöldi fólks var saman kominn, hafi verið ólýsanlegt.

Karlotta Sif hafði skráð sig í leik hjá Arion banka og var ásamt fjölda krakka víða að úr Evrópu, valin til þess að leiða liðin inn á völlinn og hlaupa inn á grasið á undan leikmönnunum. Hún fékk glænýjan fótboltabúning og skó og fékk smjörþefinn af því að vera fyrir framan tugþúsundir á Wembley. 

Héldu með Englandi

Katrín segir að mömmuhjartað hafi verið að springa úr stolti þegar hún fylgdist með stelpunni sinni hlaupa inn á völlinn. Hún hafi eiginlega verið hálfgrátandi og tilfinningarnar sterkar allan tímann á meðan leiknum stóð.

Á vellinum fengu mæðgurnar frábær sæti rétt við grasið til þess að fylgjast með hinum frábæru fyrirmyndum frá Englandi etja kappi við Þjóðverja í æsispennandi viðureign, sem Englandskonur sigruðu 2-1 eftir framlengdan leik.

Karlotta Sif hefur ekki æft fótbolta fram til þessa, en segir að þessi ævintýralega reynsla á Wembley hafi gert það að verkum að nú sé hún komin með boltabakteríuna. Hún ætli að skrá sig á æfingar hjá Fjölni í haust og stefni ótrauð á frama í sportinu, jafnvel á sæti í landsliði Íslands. 

„Nú veit ég hvernig það er að vera fótboltastjarna,“ segir Karlotta Sif.

Mynd með færslu
 Mynd: Katrín Árnadótir - RÚV
Karlotta Sif Sveinsdóttir á Wembley
Mynd með færslu
 Mynd: Katrín Árnadótir - RÚV
Karlotta Sif leiðir landslið Englands og Þýskalands inn á Wembley

Tengdar fréttir

Fótbolti

Átján ára heimamaður vann Einvígið á Nesinu

Fótbolti

Sjáðu mörkin og þegar Ljónynjurnar lyftu Evrópubikarnum

Fótbolti

England Evrópumeistari eftir framlengdan leik

Fótbolti

Vonar að árangurinn hafi víðtæk áhrif á jafnrétti