Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Kvikuinnskot orsök sjálftahrinunnar

Mynd: RÚV / RÚV
Mikil skjálftavirkni mælist enn á Reykjanesskaga eftir að kröftug hrina hófst þar um hádegi á laugardag, norðaustan við Fagradalsfjall. Upptök skjálftanna eru nokkrum kílómetrum frá Grindavík, þar sem víða hefur orðið nokkuð tjón. Prófessor í jarðeðlisfræði segir að kvikuinnskot sé helsti orsakavaldur skjálftahrinunnar.

Almannavarnir funduðu vegna stöðunnar í dag. Fulltrúar frá Grindavíkurbæ, lögreglunni á Suðurnesjum, Almannavarnardeild Ríkislögreglustjóra, HS Orku og öðrum viðbragðsaðilum áttu samráðsfund vegna viðbúnaðar og viðbragða í kjölfar skjálftanna.

Í tilkynningu frá Almannavörnum kemur fram að farið hafi verið yfir vöktunarupplýsingar frá Veðurstofu Íslands og ákvarðanir um viðbúnað og viðbragð byggðar á þeim.

Magnús Tumi Guðmundsson, prófessor í jarðeðlisfræði við Háskóla Íslands, segir að stærri skjálftarnir séu svokallaðir gikkskjálftar. Kvikuinnskot sé helsti orsakavaldur hrinunnar sem nú ríður yfir Reykjanesskaga.

„Kvikan er að troðast inn heldur norðar en hún gerði þegar gaus. Þegar kvikan treðst inn þá tjakkar hún bergið í sundur og það er svolítið eins og járnkarl sé settur í sprungu og svo er hann hreyfður til og þá verður mikil spenna við endana. Núna eru þessir skjálftar mjög nálægt, sérstaklega stóri skjálftinn. Upptök hans voru, hann var frekar grunnur og hann var rétt við Grindavík.“

Magnús segir að atburðarrásin eins og hún var í aðdraganda gossins við Fagradalsfjall í fyrra, sem endaði með gosi. Svo hafi hliðstæð atburðarrás átt sér stað um síðustu jól, sem ekki hafi endað með gosi. „Hvort tveggja er inní myndinni, við verðum bara að sjá til,“ segir Magnús Tumi.

Sá harðasti í Grindavík frá því hræringarnar hófust

Þótt dregið hafi úr stærri jarðskjálftum, mælist enn fjöldi minni skjálfta á svæðinu. Yfir tíu þúsund skjálftar hafa mælst síðan hrinan hófst. Sá stærsti var 5,5 að stærð og voru upptök hans um þrjá kílómetra norðaustur af Grindavík, tólf mínútur fyrir sex í gærkvöldi.

Íbúar í Grindavík segja stóra skjálftann einn þann versta sem þeir hafi upplifað. Sumir hafa pakkað nauðsynjum í tösku og eru tilbúnir til að flýja. 

Fannar Jónasson, bæjarstjóri Grindavíkur, segir að bæjarbúar telji að stóri skjálftinn hafi verið sá harðasti sem fundist hefur allt frá því að jarðhræringar hófust á Reykjanesskaga í byrjun árs 2020.

Í spilaranum hér að ofan má horfa á umfjöllun um málið í kvöldfréttum, meðal annars viðtal við Magnús Tuma Guðmundsson og myndskeið frá Grindavík.