Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Gunnar Axel ráðinn bæjarstjóri í Vogum

Mynd með færslu
 Mynd: Sveitarfélagið Vogar - RÚV
Gunnar Axel Axelsson, viðskipta- og stjórnsýslufræðingur og deildarstjóri á efnahagssviði Hagstofu Íslands, hefur verið ráðinn bæjarstjóri Sveitarfélagsins Voga.

Þetta kemur fram í tilkynningu á vef sveitarfélagsins þar sem segir að Gunnar Axel hefji störf á haustmánuðum.

Gunnar starfaði hjá Hagstofu Íslands frá 2005, sem deildarstjóri þjóðhagsreikninga og opinberra fjármála. Áður starfaði hann þar sem sérfræðingur í gerð hagtalna um fjármál sveitarfélaga og sérfræðingur á sviði launa- og kjararannsókna. Þá var Gunnar aðstoðarmaður velferðarráðherra á árunum 2012 til 2013.

Gunnar Axel hefur reynslu af sveitarstjórnarmálum en hann sat í bæjarstjórn Hafnarfjarðarbæjar á árunum 2010 til 2018 og sinnti meðal annars formennsku í bæjarráði og fjölskylduráði. Hann sat jafnframt í stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga um árabil og í stjórnum Strætó Bs og Rio Tinto Alcan á Íslandi.

Gunnar lauk MPA gáðu í opinberri stjórnsýslu frá Háskóla Íslands árið 2014, BS gráðu í viðskiptafræði frá Háskólanum á Bifröst 2003 og stundaði nám í Evrópufræðum við Viðskiptaháskólann í Árósum 2003 til 2004.

Gunnar Axel var valinn úr hópi 40 umsækjenda. Sex umsækjendur drógu umsóknir sínar til baka.

sigurdurk's picture
Sigurður Kaiser
Fréttastofa RÚV