Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Bara stakir kaflar í langri framhaldssögu um eldana

Mynd: RÚV / RÚV
„Þetta er bara einn kafli í langri framhaldssögu,“ sagði jarðeðlisfræðingur við upphaf eldgossins í Fagradalsfjalli í fyrra. Jörðin skalf þá mis-hressilega á Reykjanesskaganum í um 15 mánuði áður en kvikan náði upp á yfirborðið.

1. febrúar 2020 - „Mikil jarðskjálftavirkni var hér við Grindavík í gærkvöldi og í nótt. Einkum hér norðnorðaustur af Grindavík,“ sagði Haukur Holm fréttamaður fyrir um það bil einu og hálfu ári síðan. „Við getum ekkert verið viss um hvernig þetta endar og það er náttúrulega það sem viðbúnaðurinn gengur út á. Í meirihluta tilfella þá endar svona atburðarrás áður en það kemur til goss,“ sagði Magnús Tumi Guðmundsson, prófessor í jarðeðlisfræði, í sömu frétt. 

Svo leið rúmt ár. Þriðja mars í fyrra héldu Almannavarnir blaðamannafund, sem var ekki í frásögu færandi svo sem, nema í þetta sinn var fundurinn ekki vegna covid. 

3. mars 2021 - „Þetta er mjög krítísk staða. Óróinn sýnir að kvika er að brjóta skorpuna,“ sagði Freysteinn Sigmundsson jarðeðlisfræðingur, um það sem var að krauma undir yfirborðinu við Fagradalsfjall. „Stóra málið er að þetta eru engar hamfarir,“ sagði Víðir Reynisson. Vísindamennirnir bjuggust þarna við gosi innan nokkurra klukkustunda sem mundi kannski standa yfir í eina eða tvær vikur. 

Við þurftum reyndar að bíða aðeins lengur en nokkrar klukkustundir eftir gosinu í Fagradalsfjalli. Og það stóð aðeins lengur yfir en tvær vikur. Föstudagskvöldið 19. mars byrjaði að gjósa á Reykjanesskaganum.  Vísindamenn sögðu að þetta sé merkilegt gos því það hefur ekki gosið hérna svo lengi, í rúmlega 800 ár.
„Þetta er bara einn kafli í langri framhaldssögu. Og hún er þegar orðin fimmtán mánaða löng,“ sagði Páll Einarsson jarðeðlisfræðingur, í aukafréttatímanum daginn eftir að gosið byrjaði.  

Það mallaði í Geldingadölum í um það bil hálft ár. Eldgosið var sett í beina útsendingu allan sólarhringinn, gönguleiðir stikaðar, ferðamenn taldir og það heyrði til undantekninga ef fólk hafði ekki lagt leið sína að gosstöðvunum. En öll gos taka enda.  „Það má segja að eldgosinu hafi lokið 18. september, fyrir þremur mánuðum síðan,“ sagði Kristín Jónsdóttir, hópstjóri náttúruvár hjá Veðurstofu Íslands. „En svo er bara spurning hvað gerist næst.“