„Vissum ekkert og héldum að við værum aðalmálið“

Mynd: RÚV / RÚV

„Vissum ekkert og héldum að við værum aðalmálið“

31.07.2022 - 09:00

Höfundar

Árið var núll hjá Ólafi Agli og félögum hans í Vesturporti þegar þau fóru af stað með leiksýninguna Rómeó & Júlíu. Hann segir að þau hafi verið svo vitlaus að þau vissu ekki hvað þau gátu ekki og það fyllti þau sjálfsöryggi sem skilaði sér. Árni Pétur sem var töluvert eldri tók þátt í verkinu og taldi nálgun þeirra nýstárlega og frumlega. Hann segist frekar myndu hoppa fram af bjargi en segja að eitthvað hafi verið gert áður.

Ólafur Egill Egilsson leikari, leikstjóri og leikskáld fékk að velja með sér fyrirmynd í spjall við Tengivagninn á Rás 1. Fyrir valinu varð leikarinn Árni Pétur Guðjónsson og ræða þeir um listina, lífið og hvernig þeir kynntust. 

Kunni ekki mikið að leika  

„Árni er náttúrulega goðsögn í lifanda lífi í íslensku leikhúsi,“ segir Ólafur um félaga sinn. Þeir byrjuðu fyrst að vinna saman við leiksýninguna Rómeó & Júlía í leikstjórn Gísla Arnars Garðarssonar árið 2002. Þá var Ólafur nýútskrifaður úr leiklistarnámi og hafði ekkert fengið að leika.  

„Þetta var auðvitað algjört ævintýri og allt það. En ég held að þegar ég útskrifaðist úr leiklistarskólanum þá hafi ég ekki mikið kunnað að leika,“ segir Ólafur. „Eins og oft er með skóla og svona, þetta er í hausnum en ekki komið í skrokkinn. Það þarf ákveðið öryggi til að geta verið góður og maður getur ekki verið öruggur fyrr en maður er góður.“ 

„Árni eiginlega bara tók mig undir sinn væng,“ segir Ólafur. Þeir áttu stórar senur saman á sviðinu og eftir hverja einustu sýningu fóru þeir saman yfir hvað hefði mátt fara betur.  

Sá ekki sólina fyrir sjálfum sér  

„Ég var bara nýútskrifaður og lék Jesús á lendaskýlunni, það var mjög auðvelt fyrir mig að stela senunni. Ég þurfti ekki annað en að klóra mér í rassinum og þá fóru allir að horfa á mig,“ segir Ólafur en í þeirri senu fór Árni með langa einræðu. „Árni fór bara heiðarlegu leiðina að því og fór að leiða mér það fyrir sjónir að ef við erum saman í senunni, þá þurfum við að vinna saman.“  

„Ég var ekkert í illum hug, það var bara svo gaman að fá hlátur,“ segir Ólafur. Hann hafi verið svo óreyndur og nýútskrifaður að hann hafi ekki séð sólina fyrir sjálfum sér. „Þannig Árni kippti mér niður á jörðina af mikilli mildi og mikilli hlýju. Og raunverulega hjálpaði mér að skilja lögmál sviðsins og hvernig maður deilir athyglinni og fókusnum.“ Þess vegna valdi Ólafur Árna sem fyrirmynd sína.  

Sýningin var sýnd um allan heim í mörg ár og léku þeir félagar saman hátt í 400 sýningum.  

Vesturport var Björk leikhússins 

Ólafur og Árni rifja upp hve nýstárleg og spennandi sýningin Rómeó & Júlía hafi verið og í raun allt sem leikhópurinn Vesturport gerði á þessum tíma. „Það var svo mikið af lögmálum, þetta er ekki hægt að gera,“ segir Árni. Helsta áskorunin hafi verið að ná unga fólkinu inn og þegar leikari fór á svið sagði hann iðulega: Það er mjög grátt hérna, það eru allir gráhærðir. 

„Tónlistin hafði breyst og myndlistin, kvikmyndin og dansinn meira að segja líka. En leikhúsið breyttist ekkert,“ heldur hann áfram. Lögmál Vesturports var hins vegar að hafa gaman og að sýningin ætti að vera spennandi og ekki leiðinleg. „Vesturport var svolítið eins og Björk leikhússins, viðmiðin okkar voru allt önnur,“ bætir Ólafur við.  

„Mér leiddist“ 

Árni var elstur í hópnum en þótti það virkilega spennandi. Hann hafi gaman að því þegar tilraunir eru gerðar með leikhúsformið vegna þess að þannig þróist listin. Þessi leikhópur hafi verið tilbúinn að fara slíkar leiðir.  

Hann segist vera öldungurinn í íslensku tilraunaleikhúsi. „Ég byrja þegar ég er í leiklistarskólanum í Kaupmannahöfn og mér leiddist þar,“ segir hann. Þangað til að hann sá sýningu hjá Odense Teater sem hann minnir að hafi verið á rússnesku. „Ég skildi ekki orð en ég skynjaði allt. Ég er alltaf að leita að því, sem leikari upplifir þú eitthvað og reynir að endurskapa þá tilfinningu.“ 

„Ég er bæði hommi og alkóhólisti“ 

„Minn styrkur er aðallega að gefa fingurinn, það er það sem ég hef gaman af,“ segir Árni sem nýtur sín við að brjóta reglurnar. „Ég er bæði hommi og alkóhólisti. Þannig ég er strax kominn á skjön við samfélagið.“ 

„Það sem mér finnst spennandi að gera er að ögra samfélaginu og sjálfum mér,“ segir hann og vill fara aðrar leiðir.  

Þegar Árni var 17 ára gerðist hann formaður Herranætur, leikfélagsins í MR. Fyrir það hafði hann alltaf haft gaman að hefðbundnu leikhúsi en þarna hafi hann fengið algjört ógeð. „Ef fólk er að tala mjög lengi og stendur kyrrt þá hugsa ég: Mér leiðist, mér leiðist, ég er að sofna!“  

Hann segir að leikhús nú á dögum þurfi að vera miklu sjónrænna en það var áður, með hreyfingu og söng, litum og tilfinningum. 

Myndi frekar hoppa fram af bjargi 

Á þessum tíma var árið núll hjá krökkunum í Vesturporti. „Við vissum ekkert og héldum bara að við værum aðalmálið og það gaf bara ákveðið sjálfstraust,“ segir Ólafur. „Við vorum svo vitlaus að við vissum ekki hvað við gátum ekki.“ 

Til er fræg saga í leikhúsinu að eitt sinn hafi eldri leikari komið í röðina í mötuneytinu og sagt við þann yngri. „Er árið núll hjá þér? Veistu ekki að ég á forgang hér?“ Árni segir að þetta sé hættulegt viðhorf og hefur alltaf verið á móti því að eldri leikarar segi að hitt og þetta hafi verið gert áður. „Þá segi ég: Hvað græða þau á því að heyra þetta? Ekki nokkurn skapaðan hlut.“ Hann segir að hver einasta kynslóð verði að enduruppgötva hlutina og færa þá áfram. 

„Þess vegna finnst mér svo gaman að vinna með frjálsum leikhópum og ungu fólki. Þau eru svo sannfærð um að það sem þau eru að gera skipti rosa miklu máli fyrir heiminn. Það er svo fallegt,“ segir Árni. „Ég er nú oftast gamli maðurinn en ég myndi frekar hoppa fram af bjargi heldur en að segja: Þetta hefur verið gert áður,“ bætir hann við sposkur. 

Hálfnakinn Jesús uppi á sviði að reykja jónu 

„Það er frekar langt síðan ég hugsaði: Ég er orðinn yesterday’s news. Og það finnst mér dásamlegt,“ segir Árni. Honum þyki yndislegt að fylgjast með krökkunum sem eru að útskrifast núna og sjá hvernig þau vinna úr hugmyndum sínum. „Það eru aðrir hlutir að gerast.“  

Það hafi alltaf verið erfitt að fá unga fólkið til að koma í leikhús en það hafi verið þrotlaust markmið hjá Vesturporti. „Við vorum alltaf að leita það uppi, láta þau taka þátt. Ná til áhorfandans og snerta við þeim,“ segir Ólafur.  

Þess vegna hafi þeim verið boðið til London að sýna Rómeó & Júlíu. „Breskum krökkum þykir ekkert leiðinlegra en Shakespeare. En svo fréttist það að á Íslandi er verið að gera Rómeó & Júlíu sýningu sem ungt fólk elskar,“ segir Árni. Bretum hafi ekki tekist að endurnýja Shakespeare og hafi þess vegna fengið til sín þessa íslensku krakka til að hoppa og skoppa og standa hálfnakin sem Jesús Kristur og reykja jónu uppi á sviði.  

Mynd með færslu
 Mynd: Vesturport
Ólafur Egill og Árni Pétur í leiksýningunni Rómeó & Júlía

 

Eggið fór að kenna hænunni 

„Það var kannski ekki nákvæmlega hvað við vorum að gera í sýningunni, að fimleikatrikkin hafi verið svo æðislega flott. Heldur miklu frekar þessi orka, þessi hleðsla,“ segir Ólafur. Leikhópurinn hafi sífellt verið að slípa atriðin og fullkomna.  

„Á milli okkar, eftir þessa byrjun hjá okkur var aldrei togstreita,“ segir Ólafur um Árna. „Og svo byrjaði hann að segja mér til. Og það er það fallegasta sem til er,“ bætir Árni við.  

„Ég fæ alltaf hlýtt í hjartað þegar ég hugsa um þetta tímabil og okkur í minningunni að þvælast eitthvað um og röfla um lífið og listina,“ segir Ólafur um tíma þeirra saman í London. „Ég man að maður var svo þakklátur fyrir hvert einasta móment,“ samsinnir Árni. Þetta hafi verið mikil vinna en þeir hafi verið alsælir að fá að vera í London og leika á hverju kvöldi með yndislegu fólki sýningu sem þeim þótti rosalega vænt um.  

Talar ekki illa um hann fyrr en eftir tvö ár  

Árna þykir ekki erfitt að taka leiðsögn frá yngri kynslóðinni. Hann hafi alltaf sett sér þá reglu að vinni hann með einhverjum og eigi að læra af viðkomandi þá verði hann að demba sér inn í þeirra kerfi. „Nú er Óli að verða einn af okkar topp leikstjórum. Ef ég færi að vinna með honum þá myndi ég alveg samþykkja allt sem hann segir en eftir tvö ár myndi ég tala illa um hann. Ekki fyrr,“ segir Árni glettinn. 

Ólafur segir að þetta viðhorf Árna sé einmitt ástæðan fyrir því að hann lítur á hann sem sinn persónulega læriföður. Þau í Vesturporti hafi verið svo heppin að fá með sér í lið leikara af eldri kynslóðinni sem köstuðu af sér öllum valdastrúktur. „Að sjá þau fara algjörlega inn í verkið á okkar forsendum og Gísla, og hvað við vorum að reyna að gera sameiginlega. En um leið með alla sína reynslu.“  

„Og hvernig þau komu að því og hvernig þau bjuggu til skapandi andrúmsloft þar sem allt mátti og hægt var að segja fokkjú við hvaða prinsipp og lögmál sem búið var að kenna manni,“ segir Ólafur. „Þetta er eitthvað sem ég er svo sammála Árna og tek með mér þegar ég fer svo að vinna í leikhúsunum eftir að við Vesturportararnir hættum.“ 

Fékk tilvistarkreppu 

Nú eiga þeir báðir langan og farsælan feril að baki en Árni segist hafa fengið ákveðna tilvistarkreppu fyrir nokkrum árum. „Ég missti metnaðinn rétt fyrir covid og fór á eftirlaun,“ segir hann. „Og allt í einu þarf ég ekki peningana og ég er búinn að fá viðurkenningu sem leikari, ég þarf ekki að sanna mig.“ 

Hann segist hafa misst metnaðinn í einhvern tíma en hafði svolítið gaman að því. „Svo langaði mig í eitthvað sjónvarpsleikhlutverk. Þá svona bað ég fyrir því,“ segir Árni. Stundum kyrji hann eins og búddisti fyrir hlutverkum. „Ég fékk það ekki en fékk fimm hlutverk í staðinn,“ segir hann og hlær.  

Skutlaðist út úr glerskápnum og lék skrítnu kallana  

Hann hafi beðið ekki beðið fyrir hlutverkinu peningana vegna heldur vildi hann félagsskapinn. „Og fá fleiri verkefni út á það því mig langar til að sýna aðrar hliðar af mér sem leikara,“ segir Árni. Hann hafi nefnilega oftast leikið keimlíkar persónur. Fyrst þegar hann kom aftur til Íslands lék hann stóru hlutverkin, eiginmanninn eða lögfræðinginn. „Svo þegar ég skutlast út úr skápnum, glerskápnum því það vissu auðvitað allir að ég væri gay, þá fór ég að leika skrítnu kallana,“ segir hann og telur sig hafa leikið flest hommahlutverk af öllum íslenskum leikurum.  

Hann segist elska öll sín hlutverk en nú sé hann tilbúinn að prófa eitthvað nýtt. Og nú séu nokkur danshlutverk í kortunum hjá honum. 

„Hefði ekki eignast dóttur mína og væri dauður af aids“ 

Árni segist alltaf hafa verið dansandi og þegar hann var þriggja ára hitti fjölskylda hans tilvonandi Þjóðleikhússtjóra á Gullfossi. Foreldrar hans hafi spurt hann hvað þau ættu að gera við þetta litla dansfífl, hvort þau ættu að senda hann í danstíma. „Hann sagði nei, það borgar sig ekki. Þá verður hann sódómískur,“ segir Árni og hlær. „Þarna hafði hann það af mér að verða dansari,“ segir Árni.  

„Ef ég hefði farið í dansnámið þá væri ég eflaust núna að fljúga á milli Tel Aviv og New York að laga mína balletta, ég væri örugglega einn af fremstu kóríógröfurum í heiminum,“ segir hann. „Að vísu hefði ég ekki eignast dóttur mína og að öðru leyti væri ég dauður af aids.“ 

Árni hefur aldrei fengið mikið út á dansinn að gera í leikhúsinu en allt í einu segir hann að gamalt fólk sé komið í tísku. „Ég veit ekki hvort það sé eftir covid eða hvað en það er mikil eftirspurn að mér sem dansara.“ Hann segir að áður fyrr hafi dansarar þurft að hætta eftir 35 ára aldurinn en honum þykir alltaf leiðinlegt þegar slíkar reglur eru settar. Nú séu allt önnur viðmið og rifjar hann upp þegar hann var á tali við Ernu Ómars og sagði henni að hann þyrfti nú að passa sig að verða ekki illt. Hún hafi þá sagt: „Nei, það er svo flott þegar dansarinn getur varla dansað því honum er svo illt í hnjánum.“ 

Ætlar að ná leikstjóra Grímunni 

Ólafur var í þrettán ár á samning hjá Þjóðleikhúsinu og hefur leikið fjöldann allan af hlutverkum. „Ég á alls konar Grímur heima en ekki leikstjóra Grímuna, ekki enn þá. Ég ætla að ná henni einn daginn,“ segir hann aðspurður hvað hann eigi eftir að áorka. Fyrir honum er þó mikilvægast að vinna með góðu fólki sem hefur áhuga á leitinni og hinu ókannaða.  

„Árni er kominn aftur með gredduna að leika. Ég er á tímabili þar sem ég er saddur af því,“ segir Ólafur. „Ég fæ algjört kikk út úr því að skrifa og leikstýra og sjá sýningar verða,“ bætir hann við. Stóra lögmálið sé alltaf að átta sig á hvernig allir geti blómstrað í sýningunni, það sé mikilvægara en að merkja við verkefni af lista.  

Sköpunarkrafturinn það mikilvægasta í lífinu 

„Listamaðurinn þarf alltaf að skapa,“ segir Árni og í raun skipti engu máli hvað það er. „Það getur verið að búa til mat. Í eðli okkar þá líður okkur ekki vel nema við séum að skapa og þetta er guðsgjöf.“ Ólafur bætir við að í þeim skilningi séu allir listamenn, alltaf að skapa eitthvað í einhverju formi.  

„Ef við fáum ekki útrás fyrir sköpunarþrá okkar, ef við fáum það ekki þá byrjum við að éta okkur að innan. Þetta hljómar mjög djúpt en ég held að sum okkar séu bara með rosalega sterka sköpunarþrá,“ segir Árni. Hann sé forviða þegar fólk segir fjölskylduna og börnin vera það mikilvægasta í lífinu. „Ég hugsa: What? Fyrir mér er það sköpunin,“ segir hann og hlær. „Mitt líf, mitt val hefur oftast verið til að halda utan um sköpunarkraftinn. Ég bara verð að viðurkenna það.“ 

Þessu samsinnir Ólafur og segir að til þess að geta verið til staðar fyrir fjölskylduna verði þörfum hvers og eins að vera fullnægt. „Við þurfum að sjá um það sjálf,“ segir hann. Þeir félagar eru því hvergi nærri hættir og munu halda listinni áfram eins vel og þeim er unnt.  

Rætt var við Ólaf Egil Egilsson og Árna Pétur Guðjónsson í Tengivagninum á Rás 1. Hægt er að hlusta á viðtalið í heild sinni hér.