Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Ógnaði konu með hnífi og rændi farsíma hennar

Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hafði í allmörg horn að líta í gærkvöld og í nótt, eitthvað var um ölvun, slys, innbrot og gripdeildir. Einn gistir fangageymslur eftir hópslagsmál í miðborginni og lögreglan handtók mann sem hafði ógnað konu með hnífi og rænt af henni farsíma.

Ekki tókst lögreglu að hafa uppi á manni sem hafði í hótunum við fólk á tjaldsvæðinu í Laugardal en maður var handtekinn í Hafnarfirði fyrir brot á vopnalögum og vörslu fíkniefna.

Þar í bæ tók farþegi í bíl upp á því að kasta sér út á ferð án þess að slasast nokkuð að ráði. Maðurinn var fluttur með sjúkrabíl á slysadeild til aðhlynningar. Mjög ölvaður maður slapp með skrekkinn, lítið slasaður þegar hann datt af rafskútu í Háaleitishverfi. 

Hundur beit mann í Kópavogi en viðkomandi hlaut minniháttar áverka. Hundurinn var með ekki ól að því er segir í dagbók lögreglu. Brotist var inn í grunnskóla í Neðra Breiðholti og þaðan stolið leikjatölvu og einhverju fleira. Málið er til rannsóknar. 

markusthth's picture
Markús Þ. Þórhallsson
Fréttastofa RÚV