
Öflugur skjálfti yfir fimm að stærð fannst víða
Skemmdir urðu í kaldavatnslögn til Grindavíkur.
Tæplega þrjú þúsund skjálftar hafa mælst í jarðskjálftahrinu sem hófst um hádegisbil í gær. Alls hafa 50 skjálftar yfir þrír mælst og fimm yfir fjórum að stærð. GPS-mælar benda til þess að kvikuhlaup orsaki skjálftavirknina.
Sjá má viðtal við náttúruvársérfræðing Veðurstofunnar hér fyrir neðan.
Í tilkynningu frá almannavörnum segir að tilkynningar um tjón hafi borist frá Grindavík en engar tilkynningar um slys á fólki. Almannavarnir fylgjast vel með framvindunni í samvinnu við lögreglustjórann á Suðurnesjum og Veðurstofu Íslands.
Íbúar eru hvattir til þess að huga að lausa- og innanstokksmunum sem geta fallið við jarðskjálfta og huga sérstaklega að því að ekki geti fallið lausamunir á fólk í svefni. Veðurstofa Íslands hefur einnig vakið athygli á því að grjóthrun og skriður geti farið af stað í brattlendi og því er gott að sýna aðgát við brattar hlíðar. Rétt er að geta þess að tjón á munum og eignum er tilkynnt á vefsíðu Náttúruhamfaratrygginga Íslands. Ef slys hafa orðið á fólki er það tilkynnt til 112.
Fréttin hefur verið uppfærð.