Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Bandaríkjamenn ávíttir fyrir „óásættanleg ummæli“

epa10091037 Tunisia's President Kais Saied (C), speaks to the media after voting at a polling station during a referendum on a new constitution in Tunis, Tunisia, 25 July 2022. Tunisia is holding a referendum on a new draft constitution proposed by Tunisian President to replace the 2014 Constitution.  EPA-EFE/MOHAMED MESSARA
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Utanríkisráðuneyti Túnis kallaði sendifulltrúa Bandaríkjanna á teppið í dag. Tilgangurinn var að fordæma það sem þeir nefna óásættanlegar yfirlýsingar bandarískra embættis- og stjórnmálamanna vegna þjóðaratkvæðagreiðslu um stjórnarskrá og stjórnmálaþróun í landinu.

Natasha Franceschi, sem nú fer fyrir sendiráði Bandaríkjanna í Túnis, fékk að heyra ávítur vegna ummæla Antonys Blinken utanríkisráðherra og Joeys Hood verðandi sendiherra í Túnis.

Othman Jerandi utanríkisráðherra Túnis sagði afskipti þeirra af innanríkismálum algerlega óásættanleg og kvaðst furðu lostinn yfir gagnrýni þeirra sem endurspeglaði engan veginn stöðu mála í Túnis.

Jerandi fundaði áður með Kais Saied forseta sem kvaðst frábiðja sér algerlega öll afskipti af innanríkismálum Túnis. 

Blinken sagði á fimmtudag að samþykki nýrrar stjórnarskrár sem veitir Saied forseta nánast alræðisvald græfi undan lýðræði og drægi úr virðingu fyrir öllum grundvallarréttindum manna.

Forsetinn svipti þingmenn þinghelgi í fyrra og rak gjörvalla ríkisstjórnina. Saied ákvað að stjórna landinu með tilskipunum og rauf þingið á þessu ári. Hann rak fjölda dómara og lokaði stofnunum sem hafa eftirlit með spillingu í landinu. 

Stjórnarskrárbreytingarnar voru samþykktar með 95 prósentum greiddra atkvæða en kjörsókn var rétt rúm þrjátíu prósent. Bandaríska utanríkisráðuneytið lýsti strax áhyggjum að með breytingunum hyrfi eftirlit túnískra ríkisstofnanna hverrar með annarri. 

Blinken sagði að í ljósi þeirrar óánægju sem kjörsóknin sýndi bæri stjórnvöldum í Túnis að auka traust með því tryggja umbætur með víðtækri aðkomu sem flestra.

Hood tók í svipaðan streng og gagnrýndi Saied harkalega fyrir þær breytingar sem hann hefði gert á stjórnskipan landsins. Hann sagði þær ákvarðanir hans að leysa upp þing og reka ríkisstjórn vekja alvarlegar spurningar.