Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Áhugaverð hugmynd en útfærslan ekki

Mynd: Skáld.is / Forlagið

Áhugaverð hugmynd en útfærslan ekki

30.07.2022 - 11:00

Höfundar

Þrátt fyrir góðan efnivið sem býr yfir möguleikum tekst bókinni ekki að vinna á nógu áhugaverðan hátt úr honum, segir Melkorka Gunborg Briansdóttir um bókina Elsku sólir eftir Ásu Marin.

Melkorka Gunborg Briansdóttir skrifar:

Elsku sólir er skáldsaga eftir Ásu Marin, en hún hefur áður gefið út tvær ljóðabækur og þrjár skáldsögur. Tvær þeirra, bækurnar Vegur vindsins og Yfir hálfan hnöttinn, eru skáldaðar ferðasögur á framandi slóðum, önnur gerist á göngu eftir Jakobsveginum en hin í Víetnam. Elsku sólir er önnur slík ferðasaga, en í þetta sinn er förinni heitið til suðurhluta Spánar, nánar tiltekið til Andalúsíu. 

Elsku Sólir segir frá systrunum Sunnu og Ársól sem fá skyndilega óvæntan tölvupóst frá móður sinni búsettri á Spáni, sem segist vera dauðvona. Samband mæðgnanna hefur verið erfitt og slitrótt um nokkra hríð, en sérstaklega ber eldri systirin, Sunna, blendnar tilfinningar til móður sinnar sem er óútreiknanleg og sjálfhverf í samskiptum. Ársól, sú yngri, saknar hins vegar mömmu sinnar og vill fara út til hennar sem fyrst. Þrátt fyrir að fortíðin sé lituð vonbrigðum og sársauka ákveða systurnar að leggja í ferðalag ásamt Barböru, gamalli vinkonu móður þeirra. Við komuna til Spánar er það þó ekki móðir systranna sem tekur á móti þeim, heldur bréf. Úr verður nokkurs konar ratleikur um Andalúsíu, þar sem konurnar þrjár fylgja eftir vísbendingum og skilaboðum frá einni borg til annarrar, í leit að svörum og uppgjöri. 

Sunna, Ársól og Barbara, aðalpersónur bókarinnar, tilheyra ólíkum kynslóðum, en ólík heimssýn þeirra er áberandi stef í bókinni. Lesandinn fær að skyggnast inn í huga þeirra allra og segja má að þær deili með sér frásögninni, þó systurnar tvær séu í forgrunni. Ársól er um tvítugt, Sunna orðin eldri og búin að stofna eigin fjölskyldu, en Barbara á aldri við móður þeirra. Hin unga Ársól er af kynslóð samfélagsmiðlanna, alltaf með símann við höndina, tekur myndir af öllu sem hún borðar og sér og deilir með fylgjendum sínum á Instagram, nokkuð sem eldri konurnar tvær botna lítið í. Instagram-reikningur Ársólar er mjög áberandi í sögunni, en ólík tæknikunnátta kynslóðanna og sér í lagi samfélagsmiðlanotkun ungu kynslóðarinnar verður þó fljótt ofnotað stef sem hamrað er á. 

Persóna Ársólar er nokkuð grunn og ósannfærandi, þó lesendur fái vissulega að kynnast tilfinningum hennar í garð móður sinnar og sárri fortíð. Sem nokkurs konar fulltrúi sinnar kynslóðar í sögunni er hún talsvert einföld og ýkt. Til dæmis notar hún ferðalagið til Spánar, sem er jú til að kveðja deyjandi móður hennar, um leið til að styrkja stöðu sína á samfélagsmiðlum og safna fylgjendum, nokkuð sem gerir hana frekar óaðlaðandi.  

Eldri systirin, Sunna, kemur út sem heilbrigðasta persónan í bókinni, löngu búin að loka á móður sína sem hefur verið sjálfhverf og á köflum andstyggileg. Sunna efast stöðugt um það að móðir þeirra sé yfirhöfuð að segja satt og finnst ratleikurinn sem hún hefur útbúið fáránlegur. Lesandinn hallast að því að vera sammála Sunnu, því við fáum ekki að kynnast Haddý, fjarlægu móðurinni sem sagan hverfist um, nægilega vel til að hafa samúð með henni eða vilja vita um afdrif hennar.  

Næst verður vikið að öðrum veigamiklum þætti skáldsögunnar, ferðasögunni. Lesandinn er leiddur áfram í ferðalag um Andalúsíu og kemur víða við, til dæmis í Malaga, Sevilla og Granada, auk minni bæja og þorpa. Inn á milli kafla birtast landakort af því svæði sem um ræðir hverju sinni, sem er skemmtilegt og auðveldar lesandanum að fylgjast með ferðalagi kvennanna. 

Andalúsíuhéraðið er heillandi áfangastaður og spennandi sögusvið. Inn á milli eru skemmtilegar umhverfislýsingar sem skapa áhugavert andrúmsloft, á borð við lýsingar á chillípipar og hvítlauk hangandi úr gluggum fólks og leirpottum með litríkum blómum utan á svalagrindum. Þetta ljáir sögunni léttan og sumarlegar blæ. Auk vel þekktra ferðamannastaða á borð við Sevilla og Granada fá lesendur einnig að kynnast minna þekktum stöðum sem þeir hafa jafnvel aldrei heyrt um, á borð við klettaþorpið Setenil de las Bodegas og strumpaþorpið Júzcar, þar sem öll húsin eru blámáluð. 

Í heild er ferðasöguþáttur bókarinnar þó yfirborðskenndur. Lýsingarnar eru gjarnan eins og upp úr ferðahandbók eða bloggi, of almennar til að vekja raunverulegan áhuga eða sýna fram á dýpri þekkingu á svæðinu. Barbara les gjarnan upphátt úr ferðahandbók fyrir systurnar en afraksturinn er klunnalegur, þar sem skeytt er inn í frásögnina almennum upplýsingum um borgirnar og ferðamannastaði þeirra. Lýsingarnar af því sem konurnar panta sér að borða eru líka of fyrirferðarmiklar, auk hversdagslegra smáatriða sem bæta litlu við frásögnina. Setningarnar eru á tíðum stirðar, en nokkuð var um óþjálar endurtekningar sem báru vott um skort á prófarkalestri.  

Grunnhugmynd bókarinnar er þó góð. Það er áhugavert að hér eru konur, og sér í lagi sambönd kvenna, í forgrunni. Þau eru af ólíkum toga og fá öll sitt pláss í frásögninni; vinkvennasambönd, systrasambönd og mæðgnasambönd. Ýmsar tilfinningar leita upp á yfirborðið, uppgjör og erfið samtöl. En þrátt fyrir góðan efnivið sem býr yfir möguleikum tekst bókinni ekki að vinna á nógu áhugaverðan hátt úr honum. 

Tengdar fréttir

Bókmenntir

Súrrealísk frásögn sem krefst athygli og yfirlegu

Bókmenntagagnrýni

Að halda sér á floti í lífsins ólgusjó

Bókmenntir

Í senn kómískur og harmrænn samfélagsspegill