Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Lula heldur enn afgerandi forskoti á Bolsonaro

epa10092950 The presidential candidate of Brazil, Luiz Inacio Lula da Silva (R), receives the elected vice president of Colombia, Francia Marquez, during a meeting in Sao Paulo, Brazil, 26 July 2022.  EPA-EFE/Fernando Bizerra
 Mynd: EPA-EFE - EFE
Sósíalistinn Luiz Inacio Lula da Silva, fyrrverandi Brasilíuforseti, heldur afgerandi forskoti á núverandi forseta, frjálshyggjumanninn Jair Bolsonaro. Þetta kemur fram í skoðanakönnun fyrirtækisins Datafolha sem birt var í gær.

Af þeim sem svöruðu kváðust 47 prósent styðja Lula sem er sama hlutfall og í síðustu könnun fyrirtækisins. Fylgi Bolsonaros eykst aðeins um eitt prósentustig í 29 af hundraði.

Þing Brasilíu samþykkti fyrr í mánuðinum verulega aukin fjárframlög til velferðarmála en stuðningur við Bolsonaro jókst um þrjú prósentustig meðal fátækustu kjósendanna og um sex meðal kvenna.

Stjórnmálaskýrandinn Adriano Laureno telur að ákvörðun þingsins geti orðið til að minnka bilið milli Lula og Bolsonaros en varla nóg til að tryggja þeim síðarnefnda sigur.

Hins vegar telur Laureno að Bolsonaro herði enn á gagnrýni sinni á kosningakerfi landsins sem hann staðhæfir að stuðli að svindli.

Stuðningur við vinstrimanninn Ciro Gomes mældist átta prósent og Simone Tebet frambjóðandi mið-hægrimanna hefur aðeins stuðning tveggja af hundraði. 

Fyrri umferð forsetakosninganna í Brasilíu verður 2. október. Nái enginn frambjóðenda helmingi atkvæða eða meira verður kosið á milli tveggja efstu manna 30. október.