Kynna tónlist í víðum skilningi á Berjadögum
Nú í hádeginu verður fjölskylduvæna tónlistarhátíðin Berjadagar sett með tónleikum í Ólafsfjarðarkirkju. Ólöf Sigursveinsdóttir er listrænn stjórnandi hátíðarinnar. „Markmið hátíðarinnar er að kynna tónlist í víðum skilningi og skapa samveru gesta og flytjenda og vera í rauninni sterk menningarstoð á Norðurlandi í þessari flottu menningarflóru sem er hér,“ segir Ólöf
Flæði, skemmtilegheit, eftirvænting og gleði
Hún segir fjölbreytni hátíðarinnar mikla en þar verður flutt samtímatónlist, þjóðlög og leikið fjórhent á flygil, svo fátt eitt sé nefnt. Hátíðin hefur ekki verið haldin frá því árið 2019 vegna faraldursins og því segir Ólöf það hafa verið gleðilegt að vakna í morgun vitandi að nú væri loksins hægt að fagna tónlistinni á Berjadögum: „Þannig að við erum bara að tala um flæði og skemmtilegheit og eftirvæntingu og gleði sem er náttúrulega nauðsynleg í lífinu.“
Minnast gamalla og góðra tíma á Siglufirði
Nágrannarnir á Siglufirði hófu hátíðarhöldin á Síldarævintýrinu með götugrilli í gær. Daníel Pétur Baldursson, einn skipuleggjenda, segir hátíðina fara vel af stað, „Það er mikilvægt fyrir samfélagið að það sé eitthvað um að vera í bænum fyrir gesti og gangandi og minnast gamalla og góðra tíma,“ segir hann. Meðal þess sem er gert til að minnast síldartímans er að halda bryggjuball og síldarsöltun líkt og hér áður.
Þetta er bæjarhátíð á Siglufirði fjórðu helgina í röð, eru Siglfirðingar bara meira stemningsfólk en við hin eða hvernig stendur á þessu?
„Ja, þetta er allt saman ólíkar hátíðir og margar með mismunandi markhópa þannig að það er alltaf eitthvað fyrir alla á Sigló,“ segir Daníel.