Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Leitað að erlendum ferðamanni á Flateyjardal

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Hafin er leit að þýskum ferðamanni í eyðibyggðinni á Flateyjardal á skaganum milli Eyjafjarðar og Skjálfanda. Fjölmennt lið björgunarsveita og lögreglu er þar nú við leit.

Maðurinn, sem er fæddur 1947, er einn á ferð. Hann skildi bílinn sinn eftir við eyðibýlið Hof fyrir tveimur vikum. Samkvæmt heimildum fréttastofu, skildi maðurinn eftir bréf þar sem hann sagðist ætla að ganga úr Flateyjardal yfir í Fjörður og aftur til baka.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Kolbrún Þóra Löve

Jóhannes Sigfússon, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Norðurlandi eystra, segir að búið sé að kalla út björgunarsveitir sem nú eru við leit, bæði á landi og með drónum. Þá hafi aðgerðastjórn verið virkjuð á Húsavík.

Jóhannes segir mikla áherslu lagða á ítarlega leit fram á kvöld, en slæm veðurspá er fyrir morgundaginn. Auk leitarinnar sé hafin rannsókn á fyrri ferðalögum mannsins, meðal annars í samstarfi við ættingja hans.

agusto's picture
Ágúst Ólafsson
Fréttastofa RÚV