Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Hvalir, rostungar og skjaldbökur gætu sést við strendur

28.07.2022 - 14:04
Mynd með færslu
 Mynd: Helga Dögg Lárusdóttir
Tvo höfrunga, af tegund sem ekki hefur sést áður við Íslandsstrendur, rak á land í botni Hrútafjarðar í síðustu viku. Sjávarlíffræðingur segir að landsmenn megi búast við að sjá sjávardýr sem fólk hefur ekki verið vant að sjá hér við land.

Annan höfrunganna rak dauðann á land en hinn fylgdi á eftir, sá var illa á sig kominn og var aflífaður fyrir helgi að ráði dýralæknis. Höfrungarnir eru af tegund sem nefnist Risso's dolphin á ensku og hefur stundum verið kölluð grámi á íslensku.

Edda Elísabet Magnúsdóttir, sjávarlíffræðingur og lektor í líffræði við Háskóla Íslands, segir útbreiðslu ýmissa sjávarlífvera vera að breytast líklegast vegna breytinga á hitastigi, seltu og öðrum þáttum í sjónum.

„Við megum búast við því að hér förum við að sjá sjávardýr sem við tökum eftir eins og hvali, seli, rostunga sem við erum ekki vön að sjá hér við land en förum að sjá,“ segir Edda í samtali við fréttastofu.

„Stundum í mjög vondu ástandi og eru ekki lagin við að finna sína náttúrulegu fæðu.“

Jafnvel von á ákveðinni skjaldbökutegund

Edda segir að búast megi við að dýr sem séu algengari á heitari svæðum fari að sjást við strendur Íslands. Sérstaklega þegar það séu heit sumur sunnan við landið, sem geti hækkað yfirborð sjávar og haft áhrif á hvert hvalir fari og rostungar - sem hún segir að geti farið að sjást meira af. Edda segir jafnvel von á ákveðinni skjaldbökutegund.

„Jafnvel skjaldbökur sem kallast leðurbökur, það kæmi mér ekkert á óvart að einhverjar þeirra fari að sjást hérna nær landi með áframhaldandi hlýnun, svo sannarlega breytingar í hafinu.

Við munum verða vör við aðrar tegundir, og jafnvel fiska sem verða dregnir á land eða koma í net sem við erum ekki endilega vön að sjá.“

rebekkali's picture
Rebekka Líf Ingadóttir
Fréttastofa RÚV