Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Súrrealísk frásögn sem krefst athygli og yfirlegu

Mynd: Ekathimerini / Forlagið

Súrrealísk frásögn sem krefst athygli og yfirlegu

27.07.2022 - 14:53

Höfundar

Melkorka Gunborg Briansdóttir, bókmenntarýnir Tengivagnsins, fjallaði um bókina Líkamslistamanninn, eftir bandaríska verðlaunahöfundinn Don DeLillo.

Melkorka Gunborg Briansdóttir skrifar:

„Hún fylgdist með honum. Þetta var sami ólánsmaðurinn og hún hafði rekist á áður sem augljóslega hafði enga hugmynd um hvaða áhrif hann hafði á aðra. Þetta var ekki hrein eftiröpun en hún greindi þætti eigin raddar, klemmdan framburðinn, suðið djúpt í hálsinum, tíðnina, hljóðið og hve erfitt var, og nær yfirskilvitlegt, að bera kennsl á eigin rödd koma frá einhverjum öðrum, frá honum, og síðan gríðarlega ónotatilfinningu. Hún var ekki viss hvort þetta væri hennar rödd. Svo var hún viss. Á þessu augnabliki var hann ekki að tala um stóla, lampa eða mynstur í gólfteppinu. Hann virtist gefa sér tilsvör hennar í samræðum við einhvern.“

Þannig hljóðar stutt brot úr skáldsögunni Líkamslistamaðurinn eftir bandaríska rithöfundinn Don DeLillo. Bókin, sem heitir á frummálinu The Body Artist, kom fyrst út í Bandaríkjunum árið 2001, en fyrr á þessu ári kom hún út í íslenskri þýðingu Jóns P. Ásgeirssonar. Þetta er í fyrsta sinn sem skáldverk eftir DeLillo kemur út á íslensku, en það er Ugla sem stendur að útgáfunni. 

Don DeLillo er einn þekktasti skáldsagnahöfundur Bandaríkjanna, fæddur á fjórða áratug tuttugustu aldar og margverðlaunaður í sínu heimalandi. Meðal þekktustu verka hans má nefna skáldsögurnar White Noise, Libra og Underworld frá níunda og tíunda áratugnum, en auk skáldsagna hefur DeLillo fengist við ólík form ritlistarinnar, skrifað smásögur, leikrit, sjónvarpshandrit og ritgerðir. 

Líkamslistamaðurinn þykir nokkuð sérstæð í höfundarverki DeLillo. Hún er í styttra lagi, persónurnar fáar og sögusviðið minna og persónulegra en í mörgum hinna verkanna. Bókin segir frá ungri listakonu að nafni Lauren Hartke, sem tekst á við sorg eftir að eiginmaður hennar, kvikmyndaleikstjórinn Rey Robles, fremur sjálfsvíg. Skömmu fyrir dauða Rey höfðu þau hjónin tekið afskekkt hús á leigu rétt fyrir utan New York-borg og ætlað að dvelja þar í hálft ár. Einn daginn eftir morgunmat ákveður Rey að fara í bíltúr, en skömmu síðar finnst hann látinn í íbúð fyrstu eiginkonu sinnar á Manhattan, fallinn fyrir eigin hendi. Gegnt ráðum vina og aðstandenda ákveður Lauren að dvelja áfram í leiguhúsinu eftir dauða Rey, þar sem hún glímir við sorgina og undirbýr næstu sýningu sína. Lauren er nefnilega líkamslistamaðurinn sem titill bókarinnar vísar til, en hvað það nákvæmlega er sem hún gerir er óljóst þangað til undir lok bókar.

Daglegt líf Lauren eftir andlát Rey einkennist af fábreytni og einangrun, hún stundar stífar líkamsæfingar til að þjálfa sig fyrir listasýninguna, gerir erfiðar öndunaræfingar, stöður, teygjur og hreyfingar, nakin í köldu herbergi. Þess á milli fylgist hún með fuglum hamast á fóðurskammtaranum fyrir utan húsið eða horfir á beint streymi í tölvunni sem sýnir umferð um ákveðna götu í borginni Kotka í Finnlandi. Vefstreymið af götunni í Kotka heillar Lauren, sem fylgist löngum stundum með umferðinni þar, stöku bílum sem eiga leið um veginn og eins þegar hann er tómur og mannlaus. 

Það er þó snemma sem Lauren fer að gruna að hún sé ekki ein í húsinu. Fljótlega eftir andlát Rey uppgötvar hún dularfullan mann í litlu herbergi á þriðju hæð hússins. Hann er smár og fíngerður,  með úfið hár, eins og hann sé nývaknaður af djúpum svefni, á óræðum aldri og þar að auki ófær um venjuleg samskipti. Maðurinn dularfulli, sem Lauren ákveður að kalla hr Tuttle í höfuðið á kennara sínum út menntaskóla, talar nefnilega bara í slitnum og samhengislausum setningum og blandar stöðugt saman nútíð og þátíð. Fljótlega áttar Lauren sig þó á því að Tuttle talar ekki bullmál, heldur þvert á móti er hann að endurtaka setningar og samtöl sem hún átti við Rey áður en hann lést, orð fyrir orð. Og Hr. Tuttle endurtekur ekki bara orðin, heldur talar beinlínis með röddu hins látna eiginmanns, hreim hans, hljómfalli og raddblæ, sem og rödd Lauren sjálfrar. Á dularfullan hátt virðist hann einnig „muna framtíðina,“ því hann mælir orð úr samtölum sem eiga enn eftir að eiga sér stað í húsinu. 

Þetta er söguþráður bókarinnar í grófum dráttum. Við lesturinn er hann hins vegar allt annað en augljós, þar sem tónninn í frásögninni er einstaklega óræður, ljóðrænn, brotakenndur og á köflum súrrealískur. Söguþráðurinn verður ekki skilinn í heild fyrr en eftir á, en segja má að bókin sé nánast frekar eins og langt prósaljóð aflestrar en hefðbundin skáldsaga. Það sem situr eftir er ekki sjálf atburðarásin, heldur frekar tónn textans, sögumannsröddin og frásagnarhátturinn, sem er afgerandi i einkennileika sínum. Setningarnar eru knappar, klipptar og stundum samhengislausar á hátt sem minnir á absúrdverk Samuel Beckett. Aðrar lýsingar eru einstaklega næmar og vel hugsaðar, svo mjög að þær kalla á að vera lesnar aftur og aftur, leiftrandi sannar í því hvernig þær fanga fínustu blæbrigði hversdagslegrar tilveru. 

Sagan hefst á langri lýsingu á morgunverði hjónanna Rey og Lauren, samtali þeirra og athöfnum í eldhúsinu. Ýmsum kunnuglegum og hversdagslegum þáttum er gefinn sérstakur gaumur, til dæmis hvernig brauðristin þarf að rista brauðið tvisvar, lyktin af sojafræjum, veðurfréttirnar í útvarpinu og hvernig Rey hristir fernuna með appelsínusafanum. Afraksturinn er eins konar hæg kyrralífsmynd í orðum. Sú lýsing á raunar við bókina í heild, þar sem DeLillo fæst bæði við tungumálið og tímann á hátt sem fær lesandann til að gaumgæfa hvert einasta orð, hverja einustu setningu. Sjálf segir aðalpersónan Lauren um líkamslistaverk sín á einum stað: „Kannski er hugmyndin að hugsa öðruvísi um tímann,“ […] „Stöðva hann, teygja á honum, opna hann. Búa til kyrralífsmynd sem er lifandi, ekki máluð.“ 

Mig langar að staldra aðeins við persónu hr. Tuttle, mannsins sem endurtekur liðin samtöl hjónanna og man framtíðina. Við fáum aldrei að vita hver hann er eða hvaðan hann kemur, þó margir möguleikar komi til greina. Er hann draugur? Ímyndun Lauren þar sem hún tekst á við sorgina? Andlega veikur maður sem hefur hreiðrað um sig í húsinu og hlerað samtöl hjónanna? Eða bara eitthvað allt annað? Í raun skiptir það engu máli, því lesandinn er tilbúinn að samþykkja veru Tuttle í húsinu og undarlegt tal hans án frekari útskýringa. Hr. Tuttle er algjörlega í takt við súrrealískan stíl frásagnarinnar og óræðni, en því skýtur skökku við að Lauren reynir stöðugt að yfirheyra hann til að komast að því hver hann er. Hún veltir ítrekað fyrir sér ólíkum möguleikum, hvort hann sé sjúklingur sem hafi sloppið af geðsjúkrahúsi í nágrenninu og hvort hún eigi að hringja þangað til að komast að því. Þessar raunsæju hugleiðingar Lauren koma á óvart og eru úr takti við andrúmsloft og tón sögunnar að öðru leyti. Útkoman er undarleg og nokkuð ósannfærandi blanda súrrealisma og raunsæis. 

Líkamslistamaðurinn er ekki auðlesin bók. Hún krefst athygli og yfirlegu, því DeLillo gerir við lesandann það sem hr. Tuttle gerir við Lauren, mjakast áfram „gegnum setningarnar og sýnir fleti og hliðar orða eins og tungl á ólíkum kvartilum.“ Þetta einkenni bókarinnar er heillandi í upphafi, en verður þreytandi eftir því sem líður á. Hugsanir og ímyndanir Lauren renna saman við atburðarásina á hátt sem er allt annað en augljós eða auðskiljanlegur. Þó söguþráðurinn sé áhugaverður eru persónurnar fjarlægar og frásagnarmátinn sömuleiðis, óræðnin nálgast tilgerð á köflum og er of ruglingsleg til að lesandinn geti náð raunverulegu sambandi við persónur bókarinnar og atburðarás. Engu að síður inniheldur Líkamslistamaðurinn góða spretti, áhugaverð samtöl og eftirminnilegar lýsingar.

Tengdar fréttir

Bókmenntagagnrýni

Að halda sér á floti í lífsins ólgusjó

Bókmenntir

Í senn kómískur og harmrænn samfélagsspegill