Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Rússar segjast hafa náð stóru orkuveri í Donetsk

27.07.2022 - 04:35
epa10088291 Ukrainian civilians using laser tag weapons take part in tactical training to learn military skills at a paintball club in Lviv, western Ukraine, 23 July 2022. Russian troops on 24 February entered Ukrainian territory, starting a conflict that has provoked destruction and a humanitarian crisis.  EPA-EFE/MYKOLA TYS
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Rússnesk yfirvöld segja að hersveitir þeirra hafi náð stærsta kolaknúna orkuveri Úkraínu á sitt vald. Verið er nærri borginni Svitlodarsk í Donetsk-héraði.

Norska ríkisútvarpið greinir frá þessu á vef sínum og segir fjölmiðla undir stjórn aðskilnaðarsinna í héraðinu sýna myndir af hermönnum við skrifstofubyggingu versins, sem taldir eru tilheyra rússnesku Wagner málaliðasveitunum.

Sveitirnar eru fjármagnaðar af auðkýfingnum Yevgeny Prigozhin og taka aðeins að sér verkefni sem koma Rússlandi til góða.

Yfirlýsingar rússneskra stjórnvalda hafa ekki verið staðfestar en aðrir heimildarmenn segja enn barist um orkuverið. Herforingjaráð Úkraínu getur hertöku versins ekki í skýrslu sinni í gærkvöld.

Þar segir hins vegar að úkraínskar hersveitir hafi hrint árásum Rússa á vígstöðvunum í Donetsk- og Karkívhéruðum. Rússar staðhæfa að tugir erlendra hermanna hafi fallið á árás sem gerð var á úkraínsku alþjóðahersveitina í Donetsk.

Þeir segja flesta hinna föllnu vera Pólverja. Forystumenn hersveitarinnar greina sjaldan frá mannfalli í hennar röðum né hvaðan liðsmenn hennar koma.