Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Lyfjaskortur gerir vart við sig

27.07.2022 - 23:00
Rúna Hauksdóttir Hvannberg
 Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon - Skjáskot
Forstjóri Lyfjastofnunar segir að tilkynningar frá heildsölum og framleiðendum um skort á lyfjum hafi verið allmargar undanfarið, þó þeim hafi fækkað aftur yfir sumarmánuðina, í júní og fram til 15. júlí. Almenningur gerir stofnuninni einnig viðvart um lyf sem eru ófáanleg í apótekum, en þeim tilkynningum hefur fækkað nokkuð á síðustu tveimur árum. Það er merki um að brugðist sé við skortinum með viðunandi hætti eftir að tilkynning berst.

Skortur hefur verið á nokkrum algengum lyfjum í júlímánuði. Rúna Hauksdóttir Hvannberg forstjóri Lyfjastofnunar, segir í samtali við fréttastofu að ástæður lyfjaskorts geti verið margvíslegar. Tafir í framleiðsluferlinu eða flutningum til landsins sé algengasta orsökin, en að gæðastýring og aukin eftirspurn eftir tilteknum lyfjum geti einnig verið ástæða skorts.

„Lyfjaskortur er alltaf bagalegur og sérstaklega fyrir þann sem verður fyrir honum. En við höfum verið að bregðast við og innflytjendur, ekki hvað síst, að flytja inn undanþágulyf. Svo okkur hefur tekist í nánast öllum tilfellum að taka inn svokölluð undanþágulyf,“ segir Rúna.

Tilkynningar um lyfjaskort til Lyfjastofnunar 2022:

Mánuður Frá heildsölum Frá almenningi
Janúar  65 1
Febrúar     58 1
Mars     72 1
Apríl     114 1
Maí     117 4
Júní     97 2
Júlí (til 15. júlí)     53 4

 

Adrenalínpennar komnir aftur

Eðli málsins samkvæmt er meiri þörf fyrir tiltekin lyf og sum lífsnauðsynleg. „Það voru hérna svokallaðir Epi-pennar sem eru adrenalínpennar fyrir börn sem eru með bráðaofnæmi og þurfa að hafa þá á sér, en kannski ekki notað sem betur fer. Þeir eru komnir núna. Ég myndi segja að þetta væri kannski eitthvað sem maður myndi alls ekki vilja lenda í að væri ekki til í landinu.“ 

Auk Epi-pennanna sem nú eru komnir aftur, hefur meðal annars borið á skorti á Orifarm dropum, Lerkanidipin töflum, Parkódín forte töflum, ofnæmislyfinu Telfast og astmalyfinu Ventolín sem hefur verið nánast ófáanlegt í flestum lyfjaverslunum undanfarið.

Rúna segir að þrátt fyrir tilkynningar heildsala og framleiðenda um skort á lyfjum á lager kunni þau enn að vera til í verslunum.  

„Það er til samheitalyf fyrir Telfast, svo það getur vel verið að það sé til. Ventolínið er komið til landsins og það var í töluverðan tíma ekki til. En það er líka mjög mikilvægt að hafa það í huga að þó að lyfin séu búin hjá heildsölunum, þá geta þau verið til úti í apótekunum,“ segir Rúna Hauksdóttir Hvannberg.