Ein með öllu og möffins um verslunarmannahelgina

Mynd með færslu
Frá Mömmur og möffins í Lystigarðinum Mynd: Ein með öllu

Ein með öllu og möffins um verslunarmannahelgina

27.07.2022 - 15:27

Höfundar

Fyrsta takmarkalausa Ein með öllu hátíðin eftir heimsfaraldur verður haldin um verslunarmannahelgina á Akureyri. Stefnt er á að hafa hana stærri og betri en síðustu ár. Framtakið mömmur og möffins verður á sínum stað í Lystigarðinum á laugardeginum til að safna pening fyrir gott málefni.

Langþráð takmarkalaus skemmtun

„Tilfinningin er náttúrulega dásamleg, að geta haldið eitthvað almennilegt eftir þessi tvö ár,“ segir Ída Irene Oddsdóttir, ein skipuleggjenda hátíðarinnar í viðtali á Morgunvakt Rásar 1 í morgun. Á dagskrá um helgina er fjölskyldu-, barna- og kvöldskemmtun um allan bæ þar sem landsþekktir tónlistarmenn stíga á stokk, tvö tívolí verða í bænum og að sjálfsögðu verða hinir árlegu sparitónleikar á sínum stað.

Margir heimamenn stíga á stokk

Ída segir að stefnt sé að því að gera hátíð þessa árs stærri og betri en fyrri ár, enda landsmenn farið að þyrsta í góða skemmtun. „Fólk er bara orðið þreytt á að hanga inni og tekur því ekki sem sjálfsögðum hlut að geta farið út á lífið, þannig ég held að fólk eigi eftir að vera einstaklega ánægt í ár,“ segir Ída. Ef litið er á dagskrá helgarinnar má sjá að nokkuð hátt hlutfall þeirra tónlistarmanna sem koma fram eru Akureyringar, sem Ída segir þó ekki endilega hafa verið viljandi, en það sé alltaf gaman þegar heimamenn fá tækifæri til að koma fram.

Látum veðrið ekki á okkur fá

Veðurspáin fyrir helgina er kannski ekki eins og best verður á kosið, en Ída segir það ekki hafa áhrif á dagskrá helgarinnar. „Nei ég stórefa það. Miðað við það sem við höfum mátt þola síðustu tvö ár þá ætti rigning, vindur og kuldi, eitthvað sem við erum vön, ekki að hafa áhrif á okkur,“ segir hún.

Mömmur og möffins safna fyrir gott málefni

Anna Sóley Cabrera er nýr stjórnandi framtaksins mömmur og möffins sem er fastur liður í hátíðarhöldunum á Akureyri um verslunarmannahelgina. Markmiðið með framtakinu er að safna pening fyrir fæðingardeild Sjúkrahússins á Akureyri en til þess eru bakaðar bollakökur sem síðan eru seldar gestum og gangandi í Lystigarðinum á Akureyri. „Það er náttúrulega bara tengingin sem við mömmur höfum við fæðingardeildina, þetta er fyrsti staðurinn sem við komum inn á þegar við erum að eignast börnin okkar og það er svo gríðarlega gott starf unnið þar og við viljum með þessu sýna þökk og styðja við fæðingardeildina okkar sem er svo frábær,“ segir Anna. Í ár er verið að safna fyrir þráðlausum hjartsláttarmæli. 

Ekki skilyrði að vera mamma

Þetta er tólfta árið sem mömmur og möffins koma saman og stefnt er á að selja þrjú þúsund bollakökur í ár. Þó hópurinn beri heitið mömmur og möffins, segir Anna engin þátttökuskilyrði gerð um að vera móðir, „auðvitað ekki, það er nóg að eiga eina góða mömmu eða vera bara svolítið mömmuleg og vera bara tilbúin að koma og baka með okkur.“

Tengdar fréttir

Vestfirðir

Faraldurinn skemmir Mýrarboltann þriðja árið í röð

Innlent

Stefnir í metaðsókn á þjóðhátíð

Tónlist

Innipúkinn á nýjum stað um verslunarmannahelgina