Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Vél snúið við yfir Grænlandi vegna veikinda farþega

26.07.2022 - 15:37
epa07936570 A Lufthansa Airbus A321-100 aircraft approaches Tegel airport, in Berlin, Germany, 20 October 2019.  EPA-EFE/FELIPE TRUEBA
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Flugvél Lufthansa sem fara átti frá München í Þýskalandi til Denver í Bandaríkjunum var snúið við yfir Grænlandi og er nú á leið til Keflavíkur til lendingar. Samkvæmt upplýsingum frá Isavia var vélinni snúið við vegna veikinda hjá farþega, sem er nokkuð algeng uppákoma.

Annarri þýskri vél á leið til Bandaríkjanna var snúið við yfir Grænlandi síðdegis í gær og lent á Keflavíkurflugvelli. Í það skiptið var vélinni snúið við vegna sprengjuhótunar sem skrifuð var á spegil á einu af salernum vélarinnar.

Sérsveit ríkislögreglustjóra og sprengjuleitarteymi var kallað út og vélin grandskoðuð. Engin sprengja fannst en umferð um völlinn var stöðvuð í um klukkustund á meðan aðgerðum stóð. 

Úlfar Lúðvíksson, lögreglustjóri á Suðurnesjum, sagði í hádegisfréttum enn ekki vitað hver stóð fyrir hótuninni. Lögreglan hafi til skoðunar krotið í vélinni og hluti úr handfarangri farþega. 

Þórgnýr Einar Albertsson