Segir fordóma gegn hinsegin fólki hafa aukist

Mynd: RÚV / RÚV
Auknir fordómar í garð hinsegin fólks ala á meiri fordómum og jafnvel gegn öðrum minnihlutahópum, segir framkvæmdastjóri Samtakanna '78.

Hann segir mikilvægt að fræða fólk um veruleika hinsegin fólks til þess að vinna gegn bakslagi sem hafi orðið í réttindabaráttu þess.

Ný dæmi um fordóma á degi hverjum

Ítrekuð skemmdarverk á hinsegin listaverki við Grafarvogskirkju, hatursfullar bréfasendingar, orðfæri vararíkissaksóknara um málefni hinsegin hælisleitenda, aukinn sýnileiki stjórnmálamanna Vestanhafs sem tala opinberlega gegn réttindum hinsegin fólks, greinaskrif í íslenskum fjölmiðlum þar sem óbeint er velkst í vafa um tilverurétt trans fólks.

Allt eru þetta nýleg dæmi um það sem frammáfólk í réttindabaráttu hinsegin fólks segir vera bakslag. Daníel Arnarsson, framkvæmdastjóri Samtakanna '78 segir að fordómar gegn hinsegin fólki hafi aukist og orðið almennari.

„Það er ógeðfellt til dæmis bara að fara út að borða með maka sínum og það er gelt á þig vegna þess að þú ert kannski að leiða samkynja maka, sem er bara á leiðinni út að borða. Það er ógeðfellt að fá hatursfull skilaboð í kommentakerfum eða bara á Messenger um að tilvistarréttur þinn sé bara ógeðslegur. Og þetta eru ekki einu sinni grófustu dæmin," segir Daníel.

Lögðu fram kæru

Samtökin '78 lögðu í dag fram kæru á hendur Helga Magnúsi Gunnarssyni vararíkissaksóknara fyrir rógburð og opinbera smánun vegna ummæla sem hann lét falla um stöðu hinsegin hælisleitenda. Daníel segir að orðfæri vararíkissaksóknara séu fordómar sem geti talist beinlínis hættulegir, þar sem skapi fordæmi fyrir enn frekari fordóma.

„En svo er það líka bara þannig að einir fordómar, þeir smitast á aðra hópa. Þannig þegar við leyfum fordómunum mögulega að grassera undir niðri, þá erum við líka að opna á það að fordómarnir breiðist út þá á aðra minnihlutahópa. Og við erum líka alveg að heyra af því að hommar, lesbíur og tvíkynhneigt fólk eru alveg einnig að verða fyrir fordómum," segir Daníel. 

Þannig að fordómar eru fordæmisgefandi?

„Þeir eru það nefnilega þannig við verðum að hugsa líka að þegar við gefum leyfi á einn hóp þá erum við að gefa leyfi á fleiri hópa. Og það er mjög alvarleg staða."