Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Umdeild þjóðaratkvæðagreiðsla í Túnis

25.07.2022 - 22:40
Mynd: RÚV / RÚV
Afar umdeild þjóðaratkvæðagreiðsla um nýja stjórnarskrá fór fram í Túnis í dag. Landið hefur fikrað sig áfram á braut lýðræðis frá 2010 en nú óttast margir að með nýju stjórnarskránni verði það aftur að einræðisríki. Yfir 90 prósent samþykktu breytingarnar í atkvæðagreiðslunni samkvæmt útgönguspám.

Það var í Túnis sem hið svokallaða arabíska vor hófst í desember 2010. Og stundum er sagt að það sé eina ríkið þar sem áttu sér stað raunverulegar breytingar í átt að lýðræði. En það hefur mikið gengið á síðustu tólf mánuði. Fyrir réttu ári ákvað forsetinn Kais Saied að svipta þingmenn þinghelgi og reka ríkisstjórnina. Í september ákvað hann að stjórna landinu með tilskipunum og í desember tilkynnti hann um þjóðaratkvæðagreiðslu um nýja stjórnarskrá sem fór fram í dag. En á þessu ári hefur hann líka rofið þing, rekið tugi dómara og lokað stofnun sem hafði eftirlit með spillingu. 

Síðustu daga hafa farið fram mótmæli gegn forsetanum og atkvæðagreiðslunni sem andstæðingar forsetans segja ólöglega og færa landið aftur í átt að einræði. 

„Öll þessi félagasamtök hafna einum rómi þjóðaratkvæðagreiðslunni og stjórnarskránni, sem lagði af réttarríkið, jafnræði og mannréttindi,“ segir Naela Zaghlani, forseti samtaka kvenna fyrir lýðræði. 

Gagnrýnendur segja ferlið ekki hafa verið gagnsætt, það sé í raun óljóst hver sé höfundur nýju stjórnarskrárinnar. Samkvæmt henni deilir forsetinn ekki lengur völdum með þingi eða ríkisstjórn. Þau sem styðja Saied forseta segja að breytinga sé þörf svo hann geti tekið til í spilltu kerfi. 

Mohsen Saad, kennari, segist ekki hafa tekið þátt í þjóðaratkvæðagreiðslunni. „Einfaldlega vegna þess að þar á ég ekki fulltrúa. Þetta er stjórnarská eins manns, hans Kais Saied.“

Abdelawi býr í Túnis og segist styja stjórnarskrána þó svo að hún sé talin valdarán. „Ég styð hana, mikilvæga atriðið er að þarna fer heiðarlegur maður. Ég stend með stjórnarskránni eða valdaráninu eins og sagt er.“

Kjörstöðum var lokað klukkan níu í kvöld að íslenskum tíma og búist er við að nýja stjórnarskráin verði samþykkt þar sem flestir andstæðingar forsetans sniðgengu atkvæðagreiðsluna. 

olofr's picture
Ólöf Ragnarsdóttir
Fréttastofa RÚV