Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Svarar gagnrýni og steytir hnefann í átt að Kínverjum

25.07.2022 - 08:34
epa09937570 Britain's Chancellor of the Exchequer Rishi Sunak leaves Number 10 Downing Street in advance of the State Opening of Parliament in London, Britain, 10 May 2022. The British government is expected to promise to get the country 'back on track' as the government unveils its plans for the year ahead in the Queen's Speech.  EPA-EFE/NEIL HALL
Rishi Sunak. Mynd: EPA-EFE
Rishi Sunak, frambjóðandi til leiðtogasætis breska Íhaldsflokksins, hét því í gær að hann tæki einarða afstöðu gegn Kína ef hann yrði næsti forsætisráðherra Bretlands.

Flokksmenn Íhaldsflokksins kjósa sér nýjan leiðtoga í september sem verður forsætisráðherra Bretlands þegar Boris Johnson stígur til hliðar. Mótherji Sunaks, Liz Truss, fyrrverandi utanríkisráðherra, sagði nýverið að hann sýndi Kínverjum og Rússum mikla linkind.

Ríkisfjölmiðill Kína, Global Times, hefur enda áður sagt að Sunak sé sá eini sem býður sig fram til leiðtogasætis Íhaldsflokksins, sem hefur „skýra og raunsæja sýn á þróun samstarfs milli Kína og Bretlands”. Breska blaðið The Daily Mail, sem opinberlega hefur stutt Liz Truss, sagði það vera stuðningsyfirlýsingu sem enginn frambjóðandi vill fá.

Sunak sagði meðal annars að hann vildi loka öllum þrjátíu Konfúsíusar-stofnunum í landinu með það að markmiði að útrýma óbeinum áhrifum Kínverja á breska menningu og þjóðfélagsumræðu. Auk þess hét hann því að „reka Kínverska Kommúnistaflokkinn í dyr” í háskólum Bretlands með því að skylda háskóla að upplýsa um fjárframlög í þeirra garð sem nema 50 þúsund pundum eða meira. 

Segir að nú sé nóg komið

Sunak sagði einnig að hann vildi beita bresku leyniþjónustunni MI5 gegn njósnum kínverskra yfirvalda og vill koma á alþjóðlegu samstarfi til þess að sporna gegn kínverskum netárásum. Þá vill hann einnig banna yfirtökur kínverskra fyrirtækja á þjóðhagslega mikilvægum fyrirtækjum í Bretlandi, til dæmis í tæknigeiranum. 

Sagði Sunak að Kínverjar væru að „stela tækninni okkar og ná fótfestu í háskólasamfélagi okkar” í sömu svipan og þeir tryggja völd Pútíns með því að kaupa enn rússneska olíu og gas. Einnig sagði hann að Kínverjar færu fram með tuddaskap í garð nágranna sinna í Taívan. Loks gagnrýndi Sunak sögulega innviðauppbyggingu Kínverja á heimsvísu, Belti og braut, og sagði hana skuldsetja þróunarríki upp fyrir haus. 

„Þeir pynda og heilaþvo eigin borgara og skella þeim á bakvið lás og slá, eins og í Xinjang og Hong Kong, og brjóta á mannréttindum þeirra. Og þeir hafa ítrekað svínað á hagkerfi heimsins með því að þvinga gjaldmiðil sinn niður,” sagði Sunak og bætti við: „Nú er nóg komið. Of lengi hafa breskir og vestrænir stjórnmálamenn lagt rauðan dregil að fótum Kínverja og litið undan þegar þeir þjóna sínum annarlegu hagsmunum. Þessu mun ég breyta á mínum fyrsta degi sem forsætisráðherra.”

oddurth's picture
Oddur Þórðarson
Fréttastofa RÚV