Nítján breskar borgir vilja halda Eurovision

Eurovision 2022 fer fram í Tórínó á Ítalíu. Systur keppa fyrir Íslands hönd.
 Mynd: EBU

Nítján breskar borgir vilja halda Eurovision

25.07.2022 - 20:15

Höfundar

Samband evrópskra sjónvarpsstöðva, EBU, tilkynnti í dag að Eurovision-keppnin verði haldin í Bretlandi árið 2023. Mikill fjöldi breskra borga hefur sýnt áhuga á að halda keppnina á næsta ári, þeirra á meðal Glasgow, Birmingham og Manchester.

Framlag Breta, lagið Spaceman í flutningi söngvarans Sam Ryder, kom Bretlandi loks aftur á Eurovision-kortið, eftir margra ára eyðimerkurgöngu. En það var framlag Úkraínu, lagið Stefania með Kalush Orchestra, sem bar sigur úr býtum í Torínó á Ítalíu í maí síðastliðnum.

Felix Bergsson dagskrárgerðarmaður, sem er fulltrúi RÚV í stýrihóp EBU vegna Eurovision, segir að þrátt fyrir yfirlýsingar úkraínskra yfirvalda um að Eurovision færi fram í Úkraínu á næsta ári, hafi stýrihópurinn komist að þeirri niðurstöðu að ógerlegt verði halda keppnina þar, eins og ástandið er vegna innrásar Rússlands.

Samstarf Breta og Úkraínu

Breska ríkisútvarpið BBC, mun annast framkvæmd keppninnar á næsta ári í samstarfi við stjórnvöld í Úkraínu og fyrir hönd ríkissjónvarps Úkraínu.  

„Þetta varð niðurstaðan að það verður Bretland, sem var í öðru sæti í keppninni í ár, sem mun halda keppnina en með úkraínskar áherslur og í samvinnu við UA:PBC, sem er hið úkraínska RÚV,“ segir Felix.

Hann segir þetta ekki í fyrsta skipti sem sigurþjóð Eurovision haldi ekki keppnina árið eftir, en aðstæður nú séu afar óvenjulegar vegna stríðsins í Úkraínu, sem ekki sér fyrir endann á. Pólitíkin hafi einnig blandað sér með meira afgerandi hætti en oft áður í vinnu stýrihópsins, þó stuðningur stjórnvalda sé ætíð mikilvægur.

„Pólitíkusarnir voru heilmikið að skipta sér af og það kann aldrei góðri lukku að stýra þegar að þessu kemur. Það er þó engin spurning um að það land sem heldur keppnina verður að hafa pólitíkina með sér. Eða það er að minnsta kosti mjög æskilegt að það sé þannig að þjóðin standi öll að þessu og þar með ríkisvaldið. En já, þeir voru komnir mjög djúpt í viðræðurnar, sem við eigum bara venjulega við fjölmiðilinn sem á að halda keppnina,“ segir Felix. 

Bretar aftur komnir á kortið

Bretar hafa átt erfitt uppdráttar í Eurovision síðustu ár, en með framlagi Sam Ryder og laginu Spaceman, sem hafnaði í öðru sæti í Tórínó, breyttist allt. Felix segir að aldrei áður hafi fleiri fylgst með Eurovision í Bretlandi. Það sé gleðilegt að Bretar hafi náð vopnum sínum eftir öll þessi ár án margra stiga.

„Ég held að það gleðjist allir Eurovision-aðdáendur yfir því að Bretarnir séu komnir aftur eftir þessa 20 ára þrautagöngu sem þeir hafa verið í. Líka í ljósi stjórnmálanna og Brexit að þeir séu ennþá með og inni í hópnum. Og séu að taka þátt af fullri alvöru.“ 

Nú tekur við samkeppni þeirra borga í Bretlandi sem vilja fá að halda keppnina og hafa 19 breskar borgir þegar sýnt því áhuga. Viðbúið er að keppni borganna verði hörð, því vitað er hversu öflug kynning keppnin getur reynst fyrir ferðamannaiðnað, sýnileika og efnahag borganna.

„Það er strax farið að tala um ýmsar borgir, Glasgow og Birmingham kannski helst og Manchester, jafnvel Cardiff. Það eru ýmsar borgir nefndar þannig að þetta verður mjög spennandi að sjá hvað gerist í þessu. En ég veit að þetta verður glæsileg Eurovision, hvar sem hún verður haldin,“ segir Felix sem segist vera farinn að hlakka til næstu keppni og bætir við að fyrirkomulag Söngvakeppninnar liggi fyrir fljótlega, þar sem framlag Íslands verður valið.

Mynd með færslu
 Mynd: AEL - RÚV
Felix Bergsson dagskrárgerðarmaður og fulltrúi RÚV í stýrihóp EBU

Tengdar fréttir

Tónlist

Eurovision haldið í Bretlandi á næsta ári

Menningarefni

Úkraínumenn ósáttir - vilja enn halda Eurovision

Erlent

Eurovision-söngvakeppnin ekki haldin í Úkraínu

Stjórnmál

Kalush seldi verðlaunagripinn til styrktar landvörnum