Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Alþjóðlegt neyðarástand vegna apabólu

Mynd með færslu
 Mynd: tiktok
16.000 manns hafa nú greinst með apabólu á heimsvísu. Sjúkdómurinn hefur greinst í 75 löndum og fimm hafa dáið af völdum hans. Níu hafa greinst á Íslandi samkvæmt nýjustu fréttum og Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin lýsti um helgina yfir neyðarástandi á heimsvísu vegna faraldursins. Læknar segja ýmislegt í orðræðunni minna á upphaf HIV-faraldursins. Þetta helst skoðar betur þennan miður skemmtilega sjúkdóm.

Bandaríkjamaðurinn Matt Ford hefur deilt því með fylgjendum sínum á TikTok hvernig það er að vera með apabólu. Hann lýsir því hvernig bólan byrjaði sem útbrot hér og þar um líkamann og svo fylgdu mikil flensueinkenni. Svo urðu útbrotin alvarlegri og þeim fylgdu mikill sársauki. Hann ákvað að opna sig um reynslu sína af sjúkdómnum á samfélagsmiðlum til að vara fólk við. Þetta sökkar og þið viljið þetta alls ekki, sagði Ford til fylgjenda sinna og líkti fyrstu sjúkdómseinkennunum við herpes. 

Algengast er að bólur og sár komi fram á útlimum, hálsi og andliti, en helst á kynfærasvæði. Alþjóðaheilbrigðisstofnunin áréttar hins vegar að apabóluveiran dreifist fyrst og fremst við hvers kyns nána snertingu. Ekki megi skilgreina apabólu sem kynsjúkdóm - og hinseginsamfélagið biðlar til fólks að passa orðræðuna.