Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Neitar því að hernaður í Úkraínu ógni fæðuöryggi

24.07.2022 - 19:18
Mynd: EPA-EFE / EPA
Utanríkisráðherra Rússlands vísar því á bug að innrásin í Úkraínu ógni fæðuöryggi í heiminum. Úkraínsk stjórnvöld stefna að því að halda samkomulagi um útflutning korns til streitu, þrátt fyrir árás Rússa á hafnarborgina Odesa í gær.

Langþráð samkomulag um útflutning korns náðist loks á föstudaginn var. Í gærmorgun, innan við sólarhring síðar, var tveimur rússneskum flugskeytum varpað á hafnarsvæði í Odesa í Úkraínu. „Ef einhver heldur því enn fram að viðræður við Rússa, að einhvers konar samkomulag sé nauðsynlegt, þá sjáið þið hvað gerist núna. Í dag hafa rússnesk flugskeyti gert út um slíkar yfirlýsingar,“ sagði Volodymyr Zelensky, forseti Úkraínu, í ávarpi eftir árásina í gær. 

Sameinuðu þjóðirnar hafa ítrekað varað við því að fæðuöryggi í heiminum sé ógnað vegna stríðsins. Úkraína og Rússland flytja út mikið af korni og öðrum nauðsynjavörum en útflutningur hefur að mestu legið niðri vegna stríðsins. Oksana Makarova,  sendiherra Úkraínu í Bandaríkjunum, segir að úkraínsk stjórnvöld stefni að því að halda samkomulaginu til streitu. „Þið sjáið matvælakreppuna sem Rússar hafa valdið hjá öðrum þjóðum, ekki aðeins hjá Úkraínu. Við gerum allt í okkar valdi til að standa við okkar hluta. En nú þegar Rússar ganga bak orða sinna sýna þeir sitt rétta andlit og þá þarf að stöðva,“ sagði Makarov í viðtali við bandarísku sjónvarpsstöðina CBS í dag. 

Lavrov kennir Vesturlöndum um

Rússneski herinn segist hafa skotið á herskip og hernaðarmannvirki í Odesa. Haft er eftir ónafngreindum fulltrúm Sameinuðu þjóðanna að tæknilega séð væri það ekki brot á samkomulaginu. Sergey Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, vísar því á bug að fæðuöryggi sé ógnað vegna innrásar Rússa í Úkraínu. „Matvælakreppan hófst ekki í gær eða í febrúar á þessu ári. Hún byrjaði með faraldrinum því vestrænum þjóðum urðu á alvarleg glappaskot í sambandi við matvæla- og orkuþörf,“ sagði Lavrov eftir fund með utanríkisráðherra Egyptalands í dag. Hann er nú á ferðalagi um Afríku og reynir að afla stuðnings við málstað rússneskra stjórnvalda. Lavrov sagði einnig í dag að Rússar ætli sér enn að standa við samkomulagið sem var undirritað í Istanbul á föstudag.