Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Svakalegar tölur segir forseti ASÍ

22.07.2022 - 17:47
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Verðbólgan er komin í 9,9 prósent og hefur ekki mælst svo mikil í tæp þrettán ár. Forseti ASÍ segir stjórnvöld verða að beita sér til að milda höggið. Þetta sé mun meiri verðbólga en búist var við og nú þurfi að fylgjast náið með að verðbólgan fari ekki út í verðhækkanir á nauðsynjum.

Hagstofan birti þessar upplýsingar í dag og þar kemur fram að vísitala neysluverðs miðað við verðlag í júlí hækkar um 1,17 prósent frá júní sem þýðir að verðbólgan er komin í 9,9 prósent. Verðbólgan var komin í 5,7 prósent í janúar og hefur allar götur síðan þá verið að aukast en nær nýjum hæðum nú.

Fram kemur á vef Hagstofunnar að sumarútsölur hafi verið í gangi sem lækki verð á fötum og skóm og verð á húsgögnum og heimilisbúnaði hafi einnig lækkað. Kostnaður vegna búsetu í eigin húsnæði hækkaði um 2,4 prósent og verð á flugfargjöldum hækkaði um 38,3 prósent. Hækkun á flugfargjöldum í júní var vanmetin og þess vegna þessi mikla hækkun nú. Drífa Snædal er forseti Alþýðusambands Íslands.

„Þetta eru svakalegar tölur og eitthvað sem enginn vill sjá þetta er hærra heldur en við reiknuðum með og maður óttast að fara inní haustið með svona verðbólgu í gangi og virðist ekkert lát vera á. Það sem þarf að gera er náttúrulega í fyrsta lagi að fylgjast með því að þetta fari ekki út í verðlag á nauðsynjavörum af fullum þunga “, segir Drífa Snædal.

Hún segir stjórnvöld enn vera værukær gagnvart þessari þróun - sem komi verst niður á þeim sem verst standi og eyði fyrst og fremst í nauðsynjar.

„Þá kemur að því að það þarf stjórnvaldsákvarðanir að dreifa gæðunum betur og sanngjarnar til þess að milda höggið á þá sem standa höllum fæti það er hægt að gera það í gegnum skattkerfið tilfærslukerfin og það er hægt að gera það í gegnum kjarasamninga. Og þetta er náttúrulega verkefni vetrarins það að verja kaupmáttinn hjá vinnandi fólki og almenningi öllum og þá þurfa stjórnvöld að stíga inn “.

johannav's picture
Jóhanna Vigdís Hjaltadóttir
Fréttastofa RÚV