Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Ríkissaksóknari staðfestir ákvörðun lögreglu

Mynd með færslu
 Mynd:
Ríkissaksóknari hefur staðfest að rétt hafi verið að fella niður rannsókn á meintum brotum yfirkjörstjórnar í Norðvesturkjördæmi, vegna talningar atkvæða í þingkosningum síðasta haust. Helgi Magnús Gunnarsson vararíkissaksóknari, staðfestir þetta í samtali við fréttastofu.

Karl Gauti Hjaltason fyrrverandi þingmaður, kærði ákvörðun lögreglunnar á Vesturlandi um að hætta rannsókn á hendur yfirkjörstjórn og vildi meina að lög hefðu verið brotin við talningu og endurtalningu atkvæða, sem fram fór á Hótel Borgarnesi á kjördag og á kosninganótt.

Taldi Karl að nauðsynlegt væri að upplýsa um atburðarrásina og að lögregla væri best til þess fallin að rannsaka málið. Mikilvægt væri fyrir lýðræðið í landinu og trúverðugleika kosninga og úrslit þeirra, að málið yrði rannsakað.

Hann gerði meðal annars athugasemdir við umgengni fulltrúa í yfirkjörstjórn um óinnsigluð kjörgögn og taldi að undirskriftir í gerðabók kjörstjórnar hefðu ekki verið í samræmi við lög.

Lagabreytingar á meðan rannsókn stóð

Lögreglustjórinn á Vesturlandi hætti rannsókn málsins og vísaði í breytingar sem gerðar voru á kosningalögum meðan á rannsókninni stóð. Þá ákvörðun kærði Karl til ríkissaksóknara, sem nú hefur staðfest að ákvörðun lögreglustjórans á Vesturlandi hafi verið rétt. 

Karl Gauti, sem var í framboði fyrir Miðflokkinn í Suðvesturkjördæmi, er einn þeirra frambjóðenda sem tilkynnt var um að náð hefðu kjöri þegar lokatölur frá Norðvesturkjördæmi voru kynntar á kosninganótt.

Hann missti þingsætið nokkrum klukkustundum síðar þegar úthlutun jöfunarsæta fór fram á nýjan leik eftir endurtalninguna sem framkvæmd var síðar sama dag.