Hætta á fólksflótta ef verkefni færast frá LSH

Mynd: Hjalti Haraldsson / RÚV
Forstjóri Landspítalans segir að ef verkefni spítalans verði færð til einkarekinna stöðva sé hætta á að starfsfólk leiti þangað. Hann segir að spítalinn geti ekki keppt við einkareknar stöðvar um laun.

Um sjö þúsund og fimm hundruð eru á biðlistum eftir skurðaðgerðum, fjögur þúsund fleiri en voru á þessum listum fyrir heimsfaraldurinn. Aðeins helmingur skurðstofa hefur verið í notkun meðal annars vegna vegna manneklu. Forstjórinn veltir því upp hvort breyta þurfi skipulaginu.

„Ef við aukum starfsemi utan spítalans til dæmis á einkareknum miðstöðvum að þá missum við starfsfólk héðan sem við verðum að hafa til þess að sinna verkefnum sem eingöngu er hægt að sinna hér. Þannig að það verður að vera jafnvægi þarna á milli,“ segir Runólfur Pálsson, forstjóri Landspítalans

Runólfur segir að það megi ekki verða flótti af spítalanum. „Það eru ákveðin stór verkefni sem eingöngu er hægt að sinna hér og öll bráðaþjónustan sem skurðlæknar koma að og aðrir sem starfa við skurðaðgerðir. Þannig að við þurfum að geta haldið því gangandi alla daga ársins allan sólarhringinn.“   

Runólfur segir spítalann ekki getað staðist samkeppni við einkareknar miðstöðvar varðandi laun.

„En þetta er erfitt í framkvæmd því við erum með launastefnu sem nær til alls spítalans og það er erfitt ef það er verið að hækka ákveðna hópa að þá kalla aðrir eftir því sama. Þannig að gerir okkur erfitt fyrir varðandi fjármögnun. En það þarf að hugsa út fyrir rammann í þessu efni því við verðum að geta tekist á við þau verkefni sem ætlast er til að við sinnum.  Þar á meðal eru skurðaðgerðir og við erum langt utan við þá mælikvarða sem gerð er krafa um varðandi biðtíma eftir skurðaðgerð og við verðum að finna leið út úr því. En það verður að eiga sér stað í samvinnu við aðra og það verður að vera skilningur á því að það sé jafnvægi á milli verkefna sem fara fram innan spítalans og utan,“ segir Runólfur.

Það sé óásættanlegt fyrir þá sem bíða eftir aðgerð. „Ég vil taka fram að aðgerðum vegna lífshótandi sjúkdóma þeim er náttúrulega sinnt og er forgangsraðað en það eru hinir sem þurfa að bíða og jafnvel í langan tíma.“

Arnar Björnsson