Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Um 50.000 COVID-19 tilfelli í Ástralíu í gær

20.07.2022 - 06:24
epa10081189 People wearing face masks in the CBD of Brisbane, Australia, 20 July 2022. Queenslanders are being asked to carry a mask at all times as the state records more than 9,600 new COVID-19 cases.  EPA-EFE/DARREN ENGLAND AUSTRALIA AND NEW ZEALAND OUT
Þeim fer aftur fjölgandi Áströlunum sem bera grímur á almannafæri, eins og þessi kona sem var á röltinu í Brisbane í morgun. Yfirvöld í Queensland hvetja alla til að nota grímur í fjölmenni. Mynd: EPA-EFE - AAP
Í Ástralíu, þar sem til skamms tíma giltu einhverjar ströngustu sóttvarnareglur sem um getur vegna heimsfaraldurs kórónuveirunnar, berjast heilbrigðisyfirvöld við feikimikla COVID-bylgju. Þar greindust um 50.000 manns með veiruna síðasta sólarhringinn og hafa ekki verið fleiri á einum sólarhring í rúmlega tvo mánuði. Um 5.300 manns liggja á sjúkrahúsum landsins með COVID-19 og síðustu vikuna hafa ríflega 300.000 tilfelli verið staðfest.

Heilbrigðisyfirvöld áætla að raunverulegur fjöldi smitaðra sé allt að tvöfalt meiri. Þessi mikla útbreiðsla veirunnar hefur orðið til þess að stjórnvöld hvetja nú fyrirtæki til að láta alla sem það geta vinna heima. Þá hvetja þau almenning til að bera grímur fyrir vitum sér á fjölförnum stöðum innan dyra og sækja sér örvunarskammt af bóluefni við fyrsta tækifæri.