Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Öngþveiti á flugvöllum gæti varað út sumarið

19.07.2022 - 11:55
Mynd með færslu
 Mynd: Freyr Arnarson - RÚV
Nokkuð maus hefur verið í flugsamgöngum síðustu vikur. Öngþveiti hefur myndast á flugvöllum víða um heim vegna mikils fjölda ferðamanna og verkfall SAS skapaði enn frekari vandræði fyrir norræna ferðalanga. Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, segir að það hafi tekist ágætlega að bregðast við ástandinu. Engu að síður býst hann við því að rekstur flugfélaga verði krefjandi á næstu mánuðum. Ný vandamál komi upp nánast daglega sem þurfi að bregðast við.

„Þetta snýst fyrst og fremst um það að flugvellir hafi ekki náð að ráða nógu marga starfsmenn til að þjóna öllum þeim viðskiptavinum sem hafa verið að fljúga,“ segir Bogi. „Eftirspurnin er mikil. Okkur hefur tekist mjög vel að ráða við þetta ástand. 

Icelandair fer fyrsta áætlunarflugið frá Stansted-flugvelli í London í dag. Ástandið hefur verið einna verst á Heathrow-flugvelli og hefur Icelandair verið skipað að fella niður flug þangað. Þá keypti félagið sæti í vél Play í síðustu viku vegna vandræða í flota félagsins.

„Eftirspurnin á öllum okkar mörkuðum er mikil, sem er jákvætt, en þetta ástand á flugvöllum verður áfram í sumar. En við munum takast á við það og halda áfram að þjónusta okkar viðskiptavini,“ segir Bogi Nils Bogason.