Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Notar flugdreka í baráttunni gegn álftinni

19.07.2022 - 17:10
Innlent · Álft · Bændur · Fuglar · Kornrækt · Suðurland
Mynd með færslu
 Mynd: Björgvin Þór Harðarson - RÚV
Álftir valda kornbændum miklu tjóni ár hvert með miklum ágangi á ökrum. Ýmislegt hefur verið reynt en álftin sér yfirleitt í gegnum allar aðferðir. Bóndi á Suðurlandi beitir nú flugdrekum í baráttunni.

Búinn að reyna ýmsar aðferðir

Björgvin Þór Harðarson, svína- og kornbóndi í Laxárdal, segir álftina erfiðasta skaðvaldinn í kornræktun. Hann hafi verið búinn að reyna ýmislegt í baráttunni svo sem fuglahræður og ýmiss konar hljóðfælur.

„Ég var að berjast við álft sem var að herja á bæði bygg á haustin og hveiti á vorin. Ég prófaði svona flugdreka sem mér var bent á og það alveg þrælvirkaði,“ segir Björgvin.

Líkja eftir atferli ránfugla

Flugdrekarnir eru í líki fálka og hannaðir þannig að þeir fljúga eftir ákveðnu mynstri. 

„Þannig að þetta er í rauninni í ránfugl. Það er eitthvað atferli sem aðrir fuglar hræðast, meira að segja álftin,“ segir Björgvin.

Stundum með 500 álftir á ökrunum

Björgvin segir að á ræktarlandi hans séu þegar mest er um fimm hundruð álftir og þær valdi miklu tjóni.

„Þegar þær koma er það bara altjón. Ef þær koma í akur sem er fullþroska á hausti þá koma þær og labba yfir hann og éta þetta og trampa niður allan hálminn og allt, það er ekki hægt að ná neinu upp.“

Notar flugdrekana spari

Álftir eru gæfir fuglar og sjá fljótt í gegnum þær fælingaraðferðir sem er beitt. Björgvin óttast því að þær muni líka sjá í gegnum flugdrekana með tímanum. Hann notar þá því bara spari. Fyrst í vor þegar hveitið var að vaxa upp, notaði Björgvin flugdrekana og gaf það góða raun. Nú sé hins vegar ekki ástæða til að hafa þá á lofti.

Það má þó gera ráð fyrir að flugdrekarnir fari aftur á loft þegar uppskeran er tilbúin og Björgvin vonar að þeir nái að halda álftinni í skefjum áfram.