Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Enn engin ákvörðun tekin um mál Gylfa

19.07.2022 - 07:18
Mynd með færslu
 Mynd: Tomasz Kolodziejski - RÚV
Lögreglan í Manchester á Englandi segir í svari við fyrirspurn fréttastofu að enn hafi engin ákvörðun verið tekin um hvort Gylfi Þór Sigurðsson knattspyrnumaður verði ákærður eða hvort mál hans verði fellt niður.

Hann var handtekinn fyrir rétt rúmu ári, grunaður um kynferðisbrot. Farbann yfir honum rann út á dögunum og engin svör hafa fengist um framhaldið.

Gylfi sást opinberlega í fyrsta sinn frá handtökunni er hann mætti á leik Íslands og Ítalíu á EM kvenna í knattspyrnu í síðustu viku. Hann mætti einnig á leik landsliðsins gegn Frakklandi í gær.

Samningur Gylfa við úrvalsdeildarfélagið Everton rann út í sumar. Hann hefur ekkert spilað síðan hann var handtekinn fyrir ári, hvorki fyrir íslenska landsliðið né Everton.