Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Vilja ekki kaupa Mílu á óbreyttu verði

Mynd: RÚV / RÚV
Franski fjárfestingasjóðurinn Ardian vill ekki kaupa Mílu af Símanum samkvæmt óbreyttum kaupsamningi því breyta þarf skilyrðum fyrir kaupunum svo Samkeppniseftirlitið gefi grænt ljós. Samningurinn var meðal annars skilyrtur því að Síminn yrði í viðskiptum við Mílu í 20 ár.

Skilyrt að Síminn í viðskiptum í 20 ár

Sala Símans á Mílu til franska sjóðsstýringafyrirtækisins Ardian, sem tilkynnt var 23. október í fyrra, er ein sú stærsta sem gerð hefur verið hérlendis. Samningurinn hljóðar upp á 78 milljarða króna og er með fyrirvara um samþykki Samkeppniseftirlitsins. 

Einn hluti samningsins er að Síminn verði áfram í viðskiptum við Mílu í 20 ár eins og fram kemur í samrunaskrá. Síminn er langstærsti viðskiptavinur Mílu. Síminn sér síðan í fyrra aðeins um viðskiptaþjónustu Símans en Míla um innviðina; fjarskiptaþjónustuna, og annað sem tengist fjarskiptum eins og ljósleiðarakerfið og gömlu símalínurnar. 

Og nú er kominn hiksti hjá Ardian eftir samræður við Samkeppniseftirlitið því það blasir við Ardian að breyta þurfi heildsölusamningnum milli Símans og Mílu. Það þýðir að ekki mun vera hægt að ganga að því vísu að Míla fá tekjur frá Símanum eins og gert var ráð fyrir. Þetta þykir Ardian íþyngjandi og vill því ekki ljúka viðskiptunum á grundvelli óbreytts kaupsamnings. Verður að ætla að Ardian vilji borga minna fyrir Mílu en milljarðana 78. 

Ræðst af vilja Ardian og Símann til að tryggja hagsmuni neytenda

Gæta þarf þess að samningurinn raski ekki samkeppni og komi sér ekki illa fyrir neytendur. Keppinautar Símans og Mílu; Nova, Sýn og Ljósleiðarinn sem áður var Gagnaveita Reykjavíkur, hafa lýst áhyggjum sínum við Samkeppniseftirlitið. 

Og þó að skorið sé á eignatengsl stærsta heildsölufyrirtækis landsins og stærsta smásölufyrirtækisins á fjárskiptamarkaði, sem er jákvætt, þá er skuldbinding um framtíðarviðskipti milli Mílu og Símans það sem stendur meðal annars í Samkeppniseftirlitinu. Og Ardian hefur lagt til breytingar á því. 

„Fyrir Samkeppniseftirlitinu liggur þá núna að fara yfir þessar tillögur og sjónarmið sem aðilar samningsins hafa sett fram. Og verður í þessu tilviki að framkvæma svokallaða markaðsprófun þ.e.a.s. á þeim skilyrðum sem að Ardian hefur sett fram. Og það er m.a. gert með því að afla frekari sjónarmiða frá samrunaaðilum,“ segir Páll Gunnar Pálsson forstjóri Samkeppniseftirlitsins, „og svona í einfölduðu máli þá má segja að niðurstaða málsins muni í stórum dráttum ráðast af vilja samningsaðila til þess að tryggja hagsmuni neytenda til framtíðar þ.e.a.s. að það sé eytt þeim hindrunum sem skaðað geta samkeppni á þessu sviði. 

Segir samninginn góðan fyrir land og þjóð 

Gengi á hlutum í Símanum lækkaði lítillega í dag í rúmlega 200 milljóna króna viðskiptum. Sáttaviðræðum Ardian við Símans á að ljúka fyrir 18. ágúst. 

Orri Hauksson forstjóri Símans hf. er vongóður um lyktir málsins: 

Hvernig heldurðu að þetta fari, heldurðu að kaupsamningurinn nái ekki fram að ganga?

Það eru margir aðilar sem koma að þessu. Þetta eru má segja þríhliða, þetta er Síminn, þetta er Míla, Ardian, Samkeppniseftirlitið, við auðvitað ætlum bara að freista þess að láta þetta ganga. Við teljum að þetta sé mjög gott fyrir land og þjóð og fjölbreytni og fjárfestingar á íslenskum fjarskiptamarkaði,“ segir Orri Hauksson.