Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Rándýrar þotur á Reykjavíkurflugvelli

Mynd: RÚV / RÚV
Einkaþotum sem hafa viðkomu á Reykjavíkurflugvelli hefur fjölgað í sumar. Þrjú fyrirtæki þjónusta þoturnar og rekstrarstjóri ACE FBO spáir því að þær verði rúmlega 900 í ár, fleiri en fyrir heimsfaraldurinn.

Bombardier Global 5000 vél beið flugtaks á Reykjavíkurflugvelli í dag. Farþegarnir voru 2 í 19 sæta flugvélinni. Fleiri voru í áhöfn, 2 flugmenn og flugfreyja. Ný vél af þessari tegund kostar rúma 50 milljónir dollara, um sjö milljarða króna.

Hákon Öder Einarsson er rekstrarstjóri ACE FBO eins þriggja fyrirtækja sem þjónusta luxusþoturnar. Hann segir að yfir sumartímann frá júní til ágúst sé það algengt að svona stórar þotur hafi viðkomu á Reykjavíkurflugvelli. „Yfir vetrarmánuðina koma minna vélar og nýjar.  Þær koma frá framleiðanda og eru ferjaðar til og frá Bandaríkjunum".

Í heimsfaraldrinum fækkaði komum einkaflugvéla en það hefur breyst. „Í júlí 2019 þjónustuðum við 124 vélar en núna þegar mánuðurinn er rúmlega hálfnaður erum við búnir að fá 94 vélar og miðað við bókunarstöðuna er ljóst að þær verða nokkru fleiri en það. Þetta eru bara tölur frá okkar fyrirtæki". Hákon segir að það hafi komið dagar í sumar að það hafi staðið tæpt að geta tekið á móti öllum sem hingað vildu koma. Á Reykjavíkurflugvelli eru einnig vélar sem koma frá Akureyri og Egilsstöðum til þess að fá pláss í langtímastæði.

Hann lætur vel af viðskiptavinunum. „Í þessum hópi eru margir veiðimenn og einnig fólk sem kemur hingað til að skoða íslenska náttúru". En er hann ekki að hitta fræga fólkið sem reglulega prýðir forsíður erlendra blaða? "„Jú en það er nú yfirleitt þannig að þegar einhver frægur kemur hingað að þá ratar það í fréttirnar viku seinna.  Þá er viðkomandi farinn af landinu".  

Þessi ferðamennska er þá að skapa verulegar tekjur?   „Þetta er náttúrulega þessi lúxusferðamennska sem við Íslendingar viljum veðja á.  „Við sjáum um hótelbókanir, þyrluflug og hjálpum fólki að finna matsölustaði og sinnum margvíslegri þjónustu. Þetta fólk eyðir töluverðum peningum hér á landi". Það kostar sitt að geyma vélarnar á vellinum?.  „Já það gerir það og öllum er bara velkomið að fara inn á Isavia.is og kynna sér gjaldskrána þar". Hákon segir að miðað við bókunastöðuna hjá ACE FBO sjái hann ekki annað en að þotum og einkaflugvélum eigi eftir að fjölga í þeim mánuðum sem eftir eru af árinu. Eru flugvellirnir kannski að verða of litlir?  „Já það má segja það því umferðin er mikil á Akureyri, Egilsstöðum og svo eru vellirnir í Reykjavík og Keflavík nánast að springa", segir Hákon Öder Einarsson, rekstrarstjóri ACE FBO.

Í spilaranum hér að ofan er hægt að horfa á myndskeið um málið úr kvöldfréttum.