„Ég óskaði einskis heitar en að fá að vakna ekki aftur“

Mynd: Aðsend / Svavar Georgsson

„Ég óskaði einskis heitar en að fá að vakna ekki aftur“

17.07.2022 - 09:00

Höfundar

„Það er rosalega sárt að vita af aðstandanda, barninu þínu eða barnabarni, að vera að deyja einn dag í einu,“ segir Svavar Georgsson. Saklaust djamm og bjórsull á diskóteki í grunnskóla hafi leitt hann yfir í heim fíknar. Svavar bjó árum saman á götunni, hafði brennt allar brýr að baki sér þegar hann missti nánast alla von. Nú hefur hann verið edrú í tæp þrjú ár.

Svavar Georgsson var ungur þegar hann leiddist út á ranga braut. Hann var heimilislaus í mörg ár og bjó meðal annars í tjaldi í rjóðri í Breiðholti í tvö ár. Fyrir tæpum þremur árum sneri hann lífi sínu við til þess að geta verið til staðar fyrir börnin sín og einbeitir sér í dag að því að reyna verða betri maður og láta gott af sér leiða til samfélagsins. Hann ræddi við Viktoríu Hermannsdóttur í þættinum Segðu mér á Rás 1 um batann sem hann segir vera eilífðarverkefni.

Alltaf gaman að koma til Eyja í dag

Svavar verður 35 ára í desember. Hann er fæddur og uppalinn í Vestmannaeyjum þar sem hann ólst að miklu leyti upp hjá ömmu sinni. Heimahögunum ber hann vel söguna að miklu leyti. „Þetta er rosalega fallegt umhverfi og það er alltaf gaman að koma til eyja í dag. Alltaf þegar ég kem fer ég að spranga, rifja upp gamla takta, og núna í ágúst þegar pysjan fer að koma úr fjöllunum er það mikil skemmtun fyrir sérstaklga yngra fólk en kannski ekki síður þá sem eru á mínum aldri og eldri,“ segir hann.

Á sumrin er líka nóg um að vera, goslokahátíð og Þjóðhátíð, og Svavar segir að þar búi skemmtilegt fólk og áhugaverðir karakterar.

Lögreglan bankaði upp á ef eitthvað gerðist í Vestmannaeyjum

Í æsku var hann nokkuð ör og alltaf að reyna að finna sig. „Ég var alltaf að leita að einhvers konar viðurkenningu sem ég í raun fékk aldrei,“ segir Svavar. Hann fékk útrás og leitaði að athygli með því að fremja skammarstrik sem voru misalvarleg. „Ég var alltaf að gera eitthvað af mér, brjótast inn og ef eitthvað af því tagi gerðist í Vestmannaeyjum var komið heim til mín og tékkað hvort ég hefði verið heima. Þarna var ég bara lítið barn.“

Reyktu njóla í garðinum hjá ömmu

Drengirnir í vinahóp hans vöndu sig á að hittast og mana hver annan upp í alls konar vitleysu. „Þetta byrjaði innan gæsalappa bara sakleysislega í bakgarðinum hjá ömmu þar sem ég og einn vinur minn vorum í tjaldi,“ rifjar Svavar upp.

Á þessum tíma segir hann að allir hafi reykt og hver sá sem gerði það ekki hafi verið álitinn skrýtinn. „Það reyktu allir og þetta voru fyrirmynirnar í lífinu. Við fórum því í garðinn hjá ömmu, í næsta garði við hliðina bjó gamall karl, svona öskutunnukarl,“ rifjar Svavar upp.

Í garði mannsins var allt morandi í njóla sem vinirnir klipptu niður og prófuðu að reykja. „Við urðum báðir grænir í framan af reykeitrun,“ rifjar Svavar upp glettinn. „Ég var þarna sex sjö ára.“

Prófaði amfetamín níu ára

Fljótlega eftir þetta fór Svavar að umgangast aðeins eldri krakka og prufaði að smakka áfengi. „Ég held ég sé níu ára þegar ég prófa hörð fíkniefni í fyrsta sinn. Amfetamín,“ segir hann.

Börn á hans aldri hafi flest enn verið að leika sér í barnaleikjum en sjálfur sótti hann frekar í það sem var hættulegt. Hann byrjaði að horfa á glæpaþætti, hlusta á háværa tónlist og spila tölvuleiki sem voru fullir af ofbeldi. „Það mótaði mig svolítið, þessar fyrirmyndir. Mig langaði að verða eins og eitthvað af þessu liði,“ segir Svavar.

Kominn með stimpil í Eyjum

Hann óx úr grasi og fór að vinna fyrir sér á sjónum og í fiskvinnslunni. Sautján ára flutti hann út frá stjúpmóður sinni og föður og hann ákveður að fara til Reykjavíkur enda var orðspor hans í Vestmannaeyjum orðið verulega laskað. „Þá var ég kominn með rosalega leiðinlegan stimpil í eyjum og slíkur stimpill hverfur ekkert í litlum þorpum mjög auðveldlega,“ segir hann.

Svavar pakkaði því í tösku og tilkynnti fjölskyldunni að hann ætlaði að plumma sig í hinum stóra heimi, þó hann hefði lítið sem ekkert á milli handanna. Hann flutti til vinar síns og svaf í sófanum um hríð en flutti þaðan út með lítil sem engin bjargráð. „Þetta var spennandi, þetta var erfitt og þetta var alls konar. En að mestu leyti var þetta mjög erfitt, að koma sér af stað,“ segir Svavar.

Framfleytti sér með innbrotum og fíkniefnasölu

Hann flutti út, var tekjulaus og þurfti að bíða á götunni í þrjá mánuði áður en hann fékk aðstoð frá Félagsmálastofnun. „Þetta eru tæp tuttugu ár síðan,“ bætir hann við.

Hann komst af með því að selja fíkniefni og brjótast inn. „Ég smitaðist inn í það mynstur og hélt mig lengi við þá iðju að stela einhverju, reyna að selja það til að framfleyta mér neyslulega séð til að geta haft í mig og á.“

Ákveðin siðblinda fer í gang

Á tímabili skeytti hann um lítið annað en næsta skammt. „Þegar þú ert kominn á þetta stig að þurfa að grípa til þessara ráða til að framfleyta þér, þá mótast hugsunin í leiðinni og ákveðin siðblinda fer í gang,“ segir hann. „Þetta er hluti af þessu ferli, þú veikist meira og meira og þarft meira og meira. Þar af leiðandi þarftu að gera stærri, verri og hættulegri hluti af þér.“

Dagurinn fór í að gera ráðstafanir til að komast yfir þau efni sem hann taldi sig þurfa fyrir daginn. „Oftar en ekki setti maður sig í samband við einhverja dílera og þeir sögðu: Reddaðu þessu,“ segir Svavar sem þá fann leið til að verða við bóninni.

Í eitt skipti var honum tjáð að hann þyrfti að redda nýju sjónvarpi til að fá skammt. Hann fór óhikað í málið. „Ég fer bara í næstu sjónvarpsverslun. Þá var 42 tommu tæki sem var það stærsta á þeim tíma. Ég rogaðist með þetta út úr búðinni, fór í gegnum öll hliðin og fór út og lét hann hafa þetta. Fékk eitthvað drasl í staðinn,“ segir hann.

Var á götunni í næstum þrettán ár

Peningarnir fóru ekki í neitt nema fíkniefni. Svavar gat ekki borgað neins staðar leigu því hann mátti ekki sjá af skömmtunum. Hann var því heimilislaus um árabil. „Ég var af og til inni á alls konar neyslufólki en ég taldi saman og er búinn að búa meira og minna á götunni í næstum þrettán ár. Með hléum, meðferðum og alls konar tilraunum til að bæta líf mitt.“

Svavar átti um hríð svefnstað í gistiskýlinu við Lindargötu. Þá vandi hann sig á að mæta þangað á réttum tíma til að fá pláss sem hann oft fékk en stundum ekki. „Ef ég fékk ekki pláss var ég úti alla nóttina að brjóta af mér,“ segir hann. „Svo komst ég inn um morguninn og grátbað um að fá að hvíla mig.“

Bað um aðstoð til að komast í meðferð

Á meðan hann dvaldi þar fór hann að finna löngunina til að snúa blaðinu við verða sterkari. Hann bað nokkrum sinnum um aðstoð til að komast í meðferð. „Ég var andlega, líkamlega og peningalega búinn á því. Líkamlega sérstaklega,“ segir hann. Honum varð þó ekki að ósk sinni þá. 

Faldi símann inni á nærbuxunum

Gistiskýlinu lýsir hann sem geymslu fyrir fólk að sumu leyti. „Að vissu leyti er þetta rosalega flott úrræði fyrir þá sem eru heimilislausir. Ég er ekki að segja að gistiskýli séu slæmur staður, en ég er ekki heldur að hvetja neinn til að fara þangað. Þetta er ekki staður sem þú vilt enda á,“ segir Svavar.

Hann hafi verið óöruggur stundum þar inni, hræddur um að vera rændur, sem hann segir að hafi nokkrum sinnum gerst. „Í eitt skipti er ég bara með síma og ég set hann inn á klofið á mér svo honum verði ekki stolið. Þegar ég vakna daginn eftir er hann horfinn, sem sýnir svolítið hvernig ástandið þarna er. Það eru allir að ræna alla.“

Flutti inn í kúlutjald

Svavar fór að hugsa sér til hreyfings. Hann kynntist starfsemi Frú Ragnheiðar, sem er skaðaminnkandi úrræði á vegum Rauða krossins þar sem lögð er áhersla á að fyrirbyggja þann skaða og þá áhættu sem hlýst af notkun vímuefna. Þau komu við á gistiskýlinu einn daginn þar sem boðið var upp á snarl og íbúum bauðst að næla sér í hreinan búnað og hlý föt auk þess sem þau útveguðu fólki tjald. Svavar ákvað að þiggja eitt slíkt.

„Þetta var lítið skærblátt síma-kúlutjald eins og maður hefur oft séð á þjóðhátíð. Það heldur hvorki vatni né vindi og það er mjög auðvelt að skemma það,“ segir hann. En í tjaldinu hóf hann búsetu og bjó þær í tvö ár. Sú dvöl reyndist honum oft erfið.

„Það var hart sko. Yfir veturinn, líkamlega var ég nánast óhæfur til að koma mér á milli staða. Oftar en ekki lá ég bara starandi í loftið á þessu tjaldi,“ segir hann. „Ég veit ekki eftir hverju ég var að bíða en ég hafði enga orku eða líkamlega getu til að koma mér á lappir.“

Missti samband við fjölsylduna

Á þessum tíma fann hann fyrir mikilli uppgjöf og löngunin til að tóra dvínaði. „Þegar ég var kominn á þennan stað óskaði ég einskis heitar en að fá að vakna ekki aftur,“ segir hann.

Fjölskyldan segir hann að hafi löngu verið hætt að hafa samband og þau svöruðu ekki símtölum þegar hann hringdi, „sem ég skil rosalega vel í dag því það er rosalega sárt að vita af aðstandanda, barninu þínu eða barnabarni, að vera að deyja einn dag í einu,“ segir hann.

Í dag segist hann standa í ótrúlegri þakkarskuld við fjölskylduna sína. Hann hefur farið í gegnum 12-spora kerfið og segist hafa meðal annars farið í ferlið að bæta fyrir brot sín. „Ég skulda fjölskyldunni minni endalaust níunda spor,“ segir hann.

Fjölskyldur séu gjarnar á að veikjast með aðstandanda sínum sem er í neyslu og þá geti myndast sjúkt mynstur. Þær telji sig vera að aðstoða en séu ekki að því. „Þeir eru að hlaupa undir bagga með því að borga dópskuldir, leysa úr fangaklefum og verða meðvirkir með þeim sem eru á þessum stað. Það er rosalega hættulegur staður til að vera á líka,“ segir hann.

Fékk aðstoð frá Frú Ragnheiði

Það kom að því að Svavari tókst að finna leið að sigrast á fíkninni með hjálp Frú Ragnheiðar. Nú hefur hann verið edrú í tæp þrjú ár og honum hefur aldrei liðið betur. „Ég bjó í þessu tjaldi og var kominn með leið á því lífsmynstri sem ég var í. Það voru komin mörg ár síðan þetta hætti að vera gaman,“ segir hann. „Þetta byrjaði á að vera saklaust djamm eða saklaust bjórsull á diskóteki í grunnskóla yfir í að vera harkan á götunni.“

Svavar hafði á þessum tíma eignast nokkur börn og honum þótti sárt að hugsa til þess að geta ekki verið til staðar fyrir þau. Hann leitaði til Frú Ragnheiðar eftir aðstoð til að komast í meðferð. Nokkrum dögum síðar tilkynntu þau honum að þau væru komin með pláss fyrir hann. „Mér leið grínlaust eins og það væri nokkrum tonnum lyft af öxlunum mínum,“ rifjar hann upp.

Vaknaði í polli, tannlaus í efrigóm

Forsvarsmenn Frú Ragnheiðar sögðu Svavari að þau hefðu hugsað mikið til hans þetta haust þegar kalt var í veðri og hvasst úti. Honum þótti vænt um að vita að þennan tíma sem útlitið var svartast hefði verið hugsað til hans.

Tjaldið hans var enda orðið illa farið og honum var gjarnan kalt í miklum vindum. „Í eitt skipti vaknaði ég hálfur í polli í tjaldinu, allur orðinn fjólublár og ég sá fyrir mér blákalt inn í rauðan dauðann,“ rifjar hann upp. Hann var orðinn tannlaus í efri góm og átti erfitt með að matast og fannst hann eiga litla von um betra líf. En þarna bauðst honum annað tækifæri sem hann þáði.

Hjálpar föður sínum og ömmu

Lífi sínu í dag lýsir hann sem afar litríku og skrautlegu. „Það er rosalega skemmtilegt að vera ég í dag,“ segir Svavar brattur. Hann hefur lokið námi í endurhæfingarskóla og umgengst börnin sín mikið. Fjölskyldan er farin að leita til með ýmislegt og mikill kærleikur þar. „Ég er að fara núna í mánuðinum til Eyja að hjálpa pabba að gera við þakið á húsinu hans. Oftar en ekki hringir líka amma með tölvuvesen,“ segir hann og hlær.

Sjötta barnið á leiðinni

Hann einbeitir sér þó alltaf fyrst og fremst að batanum og sækir stíft fundi hjá AA-samtökunum. Framtíðinni lýsir hann sem nokkuð bjartri. Hann á enda von á barni með konu sinni sem á einn son fyrir, svo nú eru börn Svavars að verða sex.

Ómetanlegt að sjá raunverulega hamingju skína úr augum sonarins

Um helgina síðustu fór fjölskyldan á Jónsmessuhátíð á Eyrarbakka til að fá sér kandífloss og súpu og veiða. Þá upplifði hann nokkuð sem fyllti hann miklu þakklæti. „Við fórum að veiða, sem er eitt það skemmtilegasta sem ég geri, og að taka ljósmyndir af raunverulegum hamingjusvip á stráknum að fá að veiða fisk... það er svo geggjað,“ segir hann.

Hann er ánægður með lífið en segist ekki gleyma því að batinn sé langtímaverkefni. „Ég þarf að vera á tánum þar til ég dey. Sjúkdómurinn fer ekkert í sumarfrí. Ég þarf að passa mig og mæta á fundina mína,“ segir hann að lokum.

Viktoría Hermannsdóttir ræddi við Svavar Georgsson í Segðu mér á Rás 1.

Tengdar fréttir

Mannlíf

Sumir æskuvinanna hafa lent í fangelsi